Sunnan vindar blása víða
Í frétt í 24 stundum í dag er fjallað um að snyrtivöruframleiðandinn Clarins skoði nú möguleikann á því að framleiða vörur sem Birgir Þórðarson hjá Sunnan Vindum hefur þróað fyrir nuddstofuna Nordica Spa um nokkurra ára skeið.
Um „eldfjallameðferðina/Volcano treatment - the power of Icelandic nature“ sem boðið er upp á á Nordica Hilton Spa segir Birgir þetta í stuttu viðtali við Náttúruna nú í morgun: „Leirinn eins og ég laga hann er blanda úr sjóðandi hvernum, + jurtir sem ég sþð (af fjöru og fjalli) +„Profesional Massage Luxe Blend” (Sunnan Vinda blandan) + kjarnolíur úr skógi og af fjalli. Þessu er blandað saman og pakkað í einingar, sem duga á 2-3 kroppa, eftir stærð. Nuddið hitar svo upp og leirinn hreinsar með m.a. að auka blóðflæði í húðinni og skrapa gamlar frumur í burtu. Jurtirnar gefa ákveðna húðhvata og bæta „renni” nuddsins. Teið er bæði slakandi og orkugefandi eftir nuddið. Olíunuddið með Pro Luxe + skógur/fjall slær svo endapunktinn með hressandi ilmi og mýkt.
Þar sem engin „varnarefni” (les paraben og fl.) eru í leirnum, þrátt fyrir brennistein og kísilefni, gera jurtirnar það að verkum að hann er “ferskvara”, sem þarf í kæli eða frost.“
Um Sunnan Vinda
Fyrirtækið er staðsett í Hveragerði og hefur um árabil unnið að margvíslegum athugunum á jurtum og nytjum þeirra t.d. til tegerðar, snyrtivöruframleiðslu og fyrir ýmsar heilsu úrbætur (remediur). Fyrirtækið hefur starfað með og fræðst af bæði grasafólki, lyfjafræðingum, homopötum, læknum, næringafræðingum og snyrti- og nuddfræðingum.
Birgir Þórðarson hefur annast prófanir á jurtavörum Sunnan Vinda frá stofnun. Birgir er náttúrufræðingur og hefur starfað um árabil að hollustuhátta- og mengunarvarnaeftirliti hjá Hollustuvernd ríkisins og við heilbrigðiseftirlit hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, auk starfa við lífræna vottun hjá Vottunarstofunni Tún. Hann hefur lokið m.a. námi í garðyrkjufræðum og umhverfisskipualgsfræðum, auk þess að hafa stundað nám í jurtaefnafræðum og kjarnolíuvinnslu (Phytotheraphie & Medical Aromatheraphy) hjá Florial í Frakklandi og Lífræna vottun (Organic Certification) hjá Soil Association í Bretlandi. Birgir stundaði einnig nám í homopatíu hjá British College of Practical Homeopathy. Sjá vef Sunnan Vinda.
Myndin er af leir sem rennur frá nýja hverasvæðinu sem virkjaðist fyrir ofan Hveragerði í skjálfanum í vor. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sunnan vindar blása víða“, Náttúran.is: 24. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/24/sunnan-vindar-blasa-vioa/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. apríl 2009