Loftslagsbreytingar hvað er til ráða?
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær erindi um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á málþingi sem fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum efndi til í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Leena Srivastava, einn aðalhöfundur skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, flutti einnig erindi á málþinginu. Vísindanefndin hlaut í desember ásamt Al Gore friðarverðlaun Nóbels. Að loknu málþinginu sátu forseti Íslands og Leena Srivastava fyrir svörum á blaðamannafundi sem haldinn var í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfar blaðamannafundarins átti netsjónvarpsmiðillinn Icastnews viðtal við forseta Íslands og má nálgast þær samræður á netslóðinni www.icastnews.com.
Í tilkynningu vegna erindisins segir að forsetinn hafi rakið í erindi sínu hvernig loftslagsbreytingar birtast okkur í bráðnun jökla og heimsskautaíss. Nefndi hann sérstaklega hraðar breytingar á jöklum í Himalayafjöllunum sem geta haft hrikalegar afleiðingar fyrir lífsskilyrði rúmlega milljarðs jarðarbúa, einkum í Indlandi og Kína. Brýnt væri að bregðast við loftslagsbreytingum og án uppstokkunar á orkukerfum heimsins frá olíu og kolum yfir í hreina orku yrði ekki hægt að koma í veg fyrir hinar ógnvekjandi afleiðingar loftslagsbreytinga. Um víða veröld væri nú kallað eftir lausnum.
Ísland hefði sýnt hvað hægt væri að gera og rakti forseti breytingar sem orðið hefðu á orkunýtingu landsins á æviskeiði einnar kynslóðar og rökstuddi hvernig reynsla Íslands gæti orðið öðrum ríkjum hvatning til árangursríkra aðgerða. Þá lýsti forseti hvernig breytingar á hönnun og orkunýtingu bygginga gætu orðið mikilvægt framlag til lausnar og nefndi sem dæmi nýja skrifstofubyggingu í Leeds sem dótturfyrirtæki Eimskips opnaði á síðasta ári og nýja þjóðarbókhlöðu í Singapore. Einnig væri nauðsynlegt að endurskipuleggja iðnaðarframleiðslu með tilliti til orkunýtingar og virkja krafta atvinnulífs og fyrirtækja. Rannsóknir hefðu sýnt að hægt væri að ná verulegum orkusparnaði með breyttu framleiðsluskipulagi.
Vísindasamfélagið teldi að jarðarbúar hefðu aðeins örfáa áratugi til að koma mótaðgerðum í framkvæmd. Endalok kalda stríðsins sem hófust með leiðtogafundi Gorbachevs og Reagans sýndu að hægt væri að umskapa heimsmyndina á skömmum tíma. Því væri forseti bjartsýnn á að unnt væri að ná viðunandi árangri.
Leena Srivastava rakti í sínu erindi hvaða áhrif loftslagsbreytingar myndu hafa á lífsskilyrði milljarða íbúa í þróunarlöndum, einkum Asíu og Afríku, og lýsti fjölþættum aðgerðum sem væru nauðsynlegar.
Mynd og grein frá Viðskiptablaðinu.
Birt:
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Loftslagsbreytingar hvað er til ráða?“, Náttúran.is: 22. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/22/loftslagsbreytingar-hvao-er-til-raoa/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.