Rykmistur við Hálslón
Á undirbúningstíma Kárahnjúkavirkjunar var skynsömu fólki oft hugsað til þeirra hörmunga sem hlotist gætu af uppfoki úr bökkum Hálsóns þegar minnst er í lóninu yfir sumarmánuðina. Aðgerðirnar sem talað var um að gripið yrði til hljómuðu aldrei sannfærandi, þó ekki væri nema vegna umfangs svæðisins.
Ólafur Sigurjónsson í Forsæti var á dögunum staddur við Hálslón og tók þessar myndir af svæðinu og tilraunum Landgræðslunnar til að hefta uppfok með úðun bindiefnis á bakka lónsins. Myndin hér að ofan sýnir Hálslón úr lofti. Ólafur segir:
„Ég var búinn að hugsa fyrir því í sumar að fljúga austur á land þegar veður gæfi. Lét svo verða af því í síðustu viku. Ók inn með mórauðu Lagarfljóti sem áður var fagurgrænt og sá jökulleirinn þar í flæðarmálinu. Síðan lá leiðin upp að Snæfelli í 20 st. hita og smá golu. Þegar ég svo kom að Kárahnjúkum blasti við mér óhugnanleg sjón. Mikið leirfok var alla leið innanfrá jökli og norður eftir. Þarna voru menn frá Landgræðslunni með tæki að úða einhverju efni yfir flæðarmálið sem er jú margir ferkílómetrar. Mjög stór svæði eru þó ófær öllum tækjum sökum bratta og gilja. Nær jökli verður leirlagið líka fljótt svo þykkt að enginn kemst þar um nema fuglinn fljúandi Landgræðslustjóri sagði í mín eyru fyrir nokkru að það hefðu komið fram mengunarminni efni seinni ár. Sjá mátti svarta flekki af þessu fljótandi við stífluna. Veit einhver hvaða efni þetta er?
Mest öll jarðvegsþekjan 1 - 2 m þykk hefur brotnað og skolast í burtu á þessu eina ári sem nú er liðið síðan lónið var fullt og í staðin blasir við grjóturð og sandar þakin þykkum jökulleir. Moldarbakkarnir hanga slútandi fram yfir sig þar sem vatnsborðið náði hæst og halda áfram að brotna eins og venjuleg rofabörð gera .Fokið var það mikið að rétt sást móta fyrir mönnum og tækjum við og við niðri við vatnsborðið og starfsmenn við sjálfa sífluna sem vinna þar við frágang og miklar viðbótarframkvæmdir eru svo sannarlega ekki öfundsverðir. Ég geri mér þó ljóst að þetta fok er bara örlítið brot miðað við það ef ríkjandi hefði verið rigningartíð á Suðurlandi með hvössum suðvestanvindi sem þá kemur heitur og þurr norður yfir jökla og beint niður á Fljótsdalshérað og austfirði . Þá er líka í hættu öll sú mikla gróðurþekja með grasi og blómaskrúði sem enn er þó eftir alla leið austur að Snæfelli. Guð hjálpi þeim sem ákváðu þetta þeir vita ekki hvað þeir eru búnir að gera.“
Sjá fleiri myndir af svæðinu hér að neðan:
Myndir teknar við Hálslón sl. helgi. Ljósmyndir: Ólafur Sigurjónsson.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Rykmistur við Hálslón“, Náttúran.is: 14. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/14/rykmistur-vio-halslon/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. nóvember 2014