Vegakerfið
Vegagerðin er veghaldari* þjóðvega. Þjóðvegir eru þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Þeir skulu mynda eðlilegt, samfellt vegakerfi til tengingar byggða landsins.
Vegakerfinu er stundum líkt við æðakerfi mannslíkamans sem viðheldur starfseminni með því að tryggja eðlilegt blóðstreymi um hina ýmsa hluta líkamans. Með sama hætti eru traust vegakerfi og góðar samgöngur forsenda þess að mannlíf og atvinnulíf geti vaxið og dafnað í þéttbýli sem dreifbýli.
Vegagerð
Hönnun og gerð vega, brúa og jarðganga er dýr og umfangsmikil mannvirkjagerð þar sem verkfræðileg kunnátta og reynsla spila meginhlutverk. Við gerð vega er gríðarlegt magn jarðefna af ýmsum toga flutt til, oft úr nærliggjandi umhverfi en oftar en ekki þarf að flytja efnið (sand, möl og grjót) langar vegalengdir frá námu. Margar grjótnámur á Íslandi eru því miður mjög til lýta í landslaginu og má þar nefna Þórisstaðanámu í Ingólfsfjalli sem dæmi.
Malbik
Stöðugt er leitað nýrra leiða til að framleiða umhverfisvænna malbik en malbik er gert úr olíu og möl sem er lögð á vegi í fljótandi formi og þornar síðan á staðnum. Endurunninn glersalli er notaður í malbiksblöndur víða um heim og nýjar rannsóknir leiða í ljós að gler er einnig hagkvæmur kostur sem íblöndunarefni í malbik hér á landi þó að ekki sé farið að nýta sér það enn sem komið er**. Með rannsóknum og tilraunum er leitast við að finna íslenskar (auka)afurðir úr dýra og jurta-ríkinu sem nota megi til að drýgja sæolíuna eða sem sjálfstæð íblöndunarefni í bindiefni. Nokkrir vegkaflar hafa verið lagðir í tilraunaskyni***.
Landflutningar
Síðan strandsiglingar lögðust af eru vörur fluttar með vöruflutningabílum landshorna á milli. Flutningar með vöruflutningabílum er stór mengunarvaldur auk þess að slíta vegum landsins. Það er því gott að hafa í huga að það er umhverfsvænna að kaupa frekar það sem ekki þarf að flytja langar leiðir, sé þess nokkur kostur.
Fjallvegir
Opnun fjallvega fer eftir veðurfari að vori eða í sumarbyrjun og ráða þar snjóalög mestu um opnunartíma. Bleyta í vegum getur einnig valdið því að vegir opnist seint. Á vef Vegagerðarinnar má finna upplýsingar um opnun fjallvega sem og færð á vegum hverju sinni.
Utanvegaakstur
Utanvegaakstur er óheimill samkvæmt lögum hér á landi en þó er heimilt að aka utanvega ef snjór er yfir öllu og aðstæður þannig að bifreiðin fer ekki niður úr snjónum og skemmi þannig jörð. Brot á þessum lögum getur leitt til hárra fjársekta. Sé veðurlag þannig að frost og þíða hafi verið til skiptis getur jörð verið mjög viðkvæm og engan vegin hægt að aka bifreiðum yfir hana án þess að verulega á henni sjáist. Hafðu þvi alltaf í huga að láta náttúruna njóta vafans.
* Veghald merkir forræði yfir vegi (vegagerð, þjónusta og viðhald).
** Endurvinnsla á gleri og íblöndun þess í malbik. Lokaverkefni í byggingartæknifræði BSc 2010. Dóra Lind Pálmarsdóttir.
*** Íslenskar olíur til vegagerðar. Gunnar H. Gunnarsson, Vegagerðin og Sigursteinn Hjartarson, SHJ ehf. 2012.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vegakerfið“, Náttúran.is: 26. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/vegager/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. júní 2014