Hnötturinn
Loftslagsfræðingar sem skila skýrslum til nefndar Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC) segja að við séum að sjá hlýnun loftslags af mannavöldum og það er aukinn ótti við magnandi sveiflur sem kunna að auka þessi áhrif enn frekar en nú er.
Vísindamenn greina loftslagsbreytingar í trjáhringjum, kóralrifjum, og í gasbólum í ískjörnum frá Suðurskautslandinu eða Grænlandsjökli. Ískjarnarnir sýna að heimurinn hefur ekki verið svona hlýr í árþúsund eða meira. Þrjú heitustu ár sem mælst hafa hafa öll komið fram frá árinu 1998; 19 hlýjustu árin frá 1980. Jörðin hefur sennilega aldrei í jarðsögunni hlýnað jafn hratt og undanfarin 30 ár – en á þeim tíma hefðu náttúrulegar breytingar eins og breytingar á sólu og eldgos átt að kæla okkur frekar en hitt. Rannsóknir á varmarýmd hafanna benda til þess að enn meiri hlýnunar sé að vænta.
Við mennirnir erum valdir að þessum breytingum með því að brenna ógrynni jarðefnaeldsneytis, olíu og jarðgass. Þetta losar milljarða tonna af koltvíoxíði (CO2) út í andrúmsloftið á hverju ári, jafnvel þótt að breytingarnar hafi í raun og veru byrjað þegar mannkynið fór að yrkja jörðina segja sumir vísindamenn.
Ef núverandi losun heldur áfram, mun magn koltvíoxíðs í andrúmsloftinu tvöfaldast á þessari öld frá því sem það var fyrir iðnbyltingu. Það dugar sennilega til þess að hækka meðalhitastig jarðar um 2°C til 5°C. Örugglega verður einhver hlýnun en hve mikil hún verður veltur á þáttum eins og bráðnun íss, hitastigi hafsins, vatnsgufu, skýjum og breytingum á gróðurfari.
Eftir því sem náttúrulegum vistkerfum er raskað, minnkar fjölbreytileiki lífríkisins. Flestar tegundir lífvera geta ekki flutt sig um set nógu fljótt til þess að bregðast við loftslagsbreytingunum, jafnvel þótt að aðrar tegundir séu þegar að þróast og aðlagast hlýnuninni.
Útþensla hafsins vegna hlýnunar ásamt bráðnandi landís veldur því að sjávarborð mun hækka. Mannlegar athafnir gætu orðið til þess að ekki verði komið í veg fyrir bráðnun Grænlandsjökuls auk þess sem Suðurskautsísinn gæti bráðnað. Þetta myndi valda sex metra hækkun sjávarborðs, en það er nóg til þess að hafið flæði yfir land þar sem milljarðar manna búa.
Loftslagsbreytingar gætu orðið enn meiri ef það væri ekki fyrir brennisteinssót og ösku sem berst frá mengun og eldfjöllum upp í heiðhvolfið og veldur þar kælingu. Skógar og hafið taka einnig til sín um helming þess koltvíoxíðs sem við losum út í andrúmsloftið. En það virðist sem jörðin geti ekki tekið í sig mikið meira magn af koltvíoxíði, a.m.k. hækkar styrkur þess nú hratt í andrúmsloftinu. Nýlegar rannsóknir benda til þess að mómýrar og skógar sem áður bundu koltvíoxíð séu í raun og veru farin að losa koltvíoxíð og metan út í andrúmsloftið.
Helstu gróðurhúsalofttegundir eru koltvíoxíð, vatnsgufa, metan, og efni eins og SF6 sem geta verið þúsundir ára í andrúmsloftinu. Koltvíoxíð myndast við bruna jarðefnaeldsneytis og losnar einnig frá iðnaði og vegna gróðureyðingar. Metan kemur frá búpeningi, úr mýrum og sífrerasvæðum sem eru að bráðna vegna hlýnandi loftslags. Nox efni koma úr áburði, jarðvegi, og frá bruna jarðefnaeldsneytis.
Leiðir til þess að berjast við loftslagsbreytingar:
- Tæknilegar lausnir – minni mengun
- Tæknilegar lausnir – taka CO2 úr andrúmsloftinu
- Breyttur lífsstíll – minni neysla
- Minnka brennslu olíu og jarðefnaeldsneytis
- Fræðsla um loftslagsbreytingar
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hnötturinn“, Náttúran.is: 28. október 2012 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/hnotturinn/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 21. maí 2014