Alþjóðasamningur um kvikasilfur í sjónmáli
Þörf er á alþjóðlegum samningum um notkun og losun kvikasilfurs. Norrænu umhverfisráðherrarnir ítreka þetta sjónarmið í sameiginlegri blaðagrein. Tekið verður stórt skref fram á við í ferlinu þegar Sameinuðu þjóðirnar halda fyrsta samningafundinn um alþjóðlegan samning í Stokkhólmi dagana 7.-11. júní.
Samstarfið um kvikasilfur er gott dæmi um að Norðurlandaþjóðirnar geta lagst á eitt og haft þannig bein áhrif á heimsmálin. Eins og fram kom í grein umhverfisráðherranna sem birtist í öllum norrænu ríkjunum og á alþjóðavettvangi, þá er lögð áhersla á að halda samstarfinu áfram og ryðja veginn fyrir metnaðarfullan alþjóðlegan samning um kvikasilfur sem verði tilbúinn til undirritunar 2013.
Hjá Norrænu ráðherranefndinni, samstarfsvettvangi ríkisstjórnanna, hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að takmarka notkun kvikasilfurs. Ráðherranefndin fjármagnar m.a. ráðstefnuna í Stokkhólmi. - Norrænu ríkin líta vandann sömu augum. Við höfum látið að okkur kveða á alþjóðavettvangi sem hafði í för með sér að árið 2009 tókst okkur að telja önnur ríki heims á að ganga til samningaviðræðna á vettvangi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna um bindandi alþjóðlegan samning til að takmarka notkun kvikasilfurs, skrifa ráðherrarnir. Norrænu löndin hafa takmarkað eða bannað notkun kvikasilfurs heimafyrir. En þörf er á hnattrænni lausn.
Gjóskan úr íslenskum eldfjöllum er ekki það eina sem berst með vindum milli landa, það sama á við um kvikasilfur. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða og knýja fram alþjóðlegan sáttmála um kvikasilfur ef takast á að draga úr umhverfismengun á Norðurlöndum. Öll ríki heims verða því að vera aðilar að samningi um notkun kvikasilfurs. Kvikasilfur er eitt hættulegasta umhverfiseiturefnið og getur m.a. haft áhrif á námsgetu. Rannsóknir sýna að börnum á heimskautasvæðum, sem verða fyrir mikilli kvikasilfursmengun í móðurkviði, t.d.vegna fiskneyslu, er hætt við alvarlegum skaða í miðtaugakerfi. Þjóðfélagshópar sem háðir eru auðlindum hafsins, m.a. á Norðurskautssvæðinu eru þar með í sérstakri hættu. Þátttakendur á kvikasilfursráðstefnunni í Stokkhólmi verða áhrifamenn, sérfræðingar og embættismenn auk fulltrúa umhverfissamtaka og annarra frjálsra félagasamtaka um allan heim.
Grein ráðherranna í norska dagblaðinu Dagbladet Grein ráðherranna í sænska dagblaðinu Göteborgs-Posten.
Sjá viðmið Náttúrunnar um þungmálma og sérstaklega um kvikasilfur.
Birt:
Tilvitnun:
Norræna ráðherranefndin „Alþjóðasamningur um kvikasilfur í sjónmáli“, Náttúran.is: 4. júní 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/04/althjodasamningur-um-kvikasilfur-i-sjonmali/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.