Hátíðleiki jólanna er ekki sjálfgefinn og verður ekki raunveruleg upplifun nema við tökum þátt í ákveðnum menningar- og sögulega tengdum athöfnum og gjörðum sem hafa djúpa þýðingu fyrir okkur sem manneskjur, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. 

Tákn jólanna eru klassísk og tengjast bæði náttúrunni sjálfri og andlegum og trúarlegum hlutum, verum og hugmyndum. Táknin tala til sálar okkar með „dularfullum“ hætti en með aðferðum myndgreiningar s.s. lita- og formfræði og þekkingar á þeim táknum sem hafa menningarsögulega skírskotun má nálgast það að skilja þýðingu hvers tákns fyrir sig og þannig komast nær því að gera sér grein fyrir raunverulegri þýðingu táknanna fyrir okkur sem mannverur í þessari tilveru okkar.

Stór hluti hátíðleiks jólanna felst í barnslegri „tilhlökkun“ um að draumar rætist og fullorðinslegri „von“ um að allt fari vel að lokum og daginn lengi á ný . Það er á ábyrgð foreldranna að tilhlökkun barnanna sé haldið lifandi og það er gríðarlega mikilvægt að börnin okkar fái að hlakka til og upplifa lífið sem eitthvað sem leyfir draumum að rætast en er einnig sem stórt leyndarmál. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt fyrir þroska barnsins þannig að það geti hlakkað til lífsins sem framundan er.

Jólin eru hin raunverulega hátíð lífsins á jörðinni, ekki eingöngu fæðingar Jesú Krists þó að í okkar samfélagi tengist hún kristninni. Flest ef ekki öll samfélög heimsins hafa hátíðir á þessum tíma árs, eða um sín áramót enda þurfa allir menn að tilbiðja lífið og náttúruna, móður sína. og loka hringveginum um sólina, sem árið er.

Jólin hjálpa okkur í gegnum veturinn og minna okkur á að lífið vaknar aftur eftir langan vetur (ber, könglar, hnetur, greni o.fl.) með því að mæla tímann og hlakka til með því að „telja niður að“ galdri lífsins, fæðingu frelsarans (þegar lífið vaknar).

Jóladagatöl hafa sögulega hefð á Íslandi og víða um heim og eru eitt mikilvægast „tilhlökkunartæki“ fyrir börnin okkar. Dagatal í formi glugga sem fyrirtæki í Hveragerðisbæ og börn í Grunnskólanum vinna úr ýmsum efnivið verða „opnaðir“ einn af öðrum fram að jólum en það er nýjung í því að koma dagatali fyrir í bæjarumhverfi og móta í raun litla jólasýningu. Ég vona að gluggarnir og skilaboðin í opnu bókunum sem standa við hvern glugga eigi eftir að varpa ljósi á þýðingu jólanna og merkingu táknanna fyrir okkur mannfólkið.

Gleðilegan jólundirbúning!

Grafík: Glugginn hefur ákveðna táknræna þýðingu. Hann myndar einskonar skil milli tveggja heima, og tengist jólunum á ýmsa vegu í hugum okkar. Það er útbreyddur siður að skreyta gluggana sína fyrir jólin. Frá 1. til 24. desember opna gluggar víðs vegar um Hveragerðisbæ. Fylgist með hvaða tákn fylgja hvaða degi en á næstu dögum verður hrint af stað spurningaleik um tákn hvers glugga í dagatalinu. Leikurinn er öllum opinn, jafnt gestum sem bæjarbúum. Eyðublað verður aðgengilegt á vef Hveragerðisbæjar hveragerdi.is innan fárra daga. Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.

Birt:
1. desember 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jóladagatal í Hveragerðisbæ“, Náttúran.is: 1. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/01/joladagatal-i-hverageroisbae/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: