Stjórn Landverndar tekur undir áhyggjur SUNN (Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi) vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana í Gjástykki í Suður-Þingeyjarsýslu, sem nú eru í matsferli vegna umhverfisáhrifa. Landvernd hvetur áhugasama til að kynna sér frummatsskýrslu Landsvirkjunar vegna rannsóknarborana í Gjástykki sem nálgast má hjá Skipulagsstofnun og leggja fram athugasemdir. Athugasemdafrestur er til 28. ágúst 2009.

Landvernd hefur áður beitt sér gegn því að ráðist sé í orkuvinnslu í Gjástykki, enda hefði slíkt í för með sér mikið rask á svæði sem líkur benda til að búi yfir lítilli orku. Bent er í þessu sambandi á álit Náttúrufræðistofnunar Íslands á verndargildi jarðmyndana í Gjástykki, sbr. bréf stofnunarinnar til Umhverfisstofnunar dags. 12. janúar 2009 sem birt er á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar www.ni.is:

“Að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands er Gjástykki einstætt frá jarðfræðilegu sjónarmiði, bæði á landsvísu og heimsvísu. Gjástykki er eitt fárra svæða á Íslandi þar sem glögglega má sjá hvernig landið hefur gliðnað með tilheyrandi sigdæld, sprungum og misgengjum. Þar má jafnframt skoða hvernig hraun frá Kröflueldum hefur komið upp á svæðinu og runnið um svæðið, hulið sprungur og jafnvel runnið ofan í þær. Í Kröflueldum var í fyrsta sinn í heiminum fylgst með gliðnunarhrinu í eldstöðvakerfi á flekaskilum þar sem atburðurinn var allur vaktaður. Fylgst var með landsigi og –risi, gliðnun mæld, fylgst með kvikuhlaupum á jarðskjálftamælum og spáð fyrir um einstök eldgos. Að mati stofnunarinnar eru ómetanleg jarðfræðileg, vísindasöguleg og menningarsöguleg verðmæti fólgin í þessum þætti myndunarsögu Íslands. Frá þessu sjónarmiði er allt rask í Gjástykki óæskilegt og gildir það reyndar um svæðið allt frá Leirhnúk norður í Kelduhverfi.”

Gjástykki, ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk vestan Kröflu, er sennilega það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýnir hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Á þessum slóðum eru því aðstæður til fræðslu og náttúruupplifunar sem hvergi gefast annars staðar og í því felast mikil tækifæri. Miklir möguleikar eru á þessum slóðum fyrir útivist og ferðaþjónustu, t.d. í gönguferðum milli Jökulsárgljúfra í Vatnajökulsþjóðgarði og Mývatns. Allt rask, þar með taldar rannsóknarboranir, ógnar þessu gildi og rþrir ímynd og gæði. Betri kostur væri að huga að annars konar nýtingu svæðisins, t.d. uppbyggingu eldfjallafræðagarðs í Gjástykki og við Leirhnjúk.

Friðlýsing Gjástykkis er forsenda þess að þessu merkilega svæði verði ekki raskað. Stjórn Landverndar hvetur því umhverfisráðherra að taka jákvætt í áskorun SUNN um að hafist verði handa sem fyrst við að undirbúa friðlýsingu.

Mynd af vef Landverndar. Höfundur ónefndur.
Birt:
14. ágúst 2009
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Landvernd styður friðlýsingu Gjástykkis“, Náttúran.is: 14. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/14/landvernd-styour-friolysingu-gjastykkis/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: