Mat á arðsemi orkusölu til stóriðju
Birt hefur verið fyrsta áfangaskýrsla um mat á arðsemi orkusölu til stóriðju sem Sjónarrönd hefur unnið að beiðni fjármálaráðuneytis. Að mati skýrlsuhöfunda er fjórðungi rannsóknarinnar lokið. Niðurstöður eru engu að síður sláandi og styðja svo um munar rök þeirra sem gagnrýnt hafa stóriðjustefnu og orkusölu henni tengdri.
Helstu niðurstöður höfnda eru:
- Samanburður á arðsemi orkufyrirtækja og arðsemi í annarri atvinnustarfsemi hérlendis gefur til kynna að arðsemi af fjármagni sem bundið var í orkuvinnslu og dreifingu 1988- 2006 hafi að jafnaði verið um 1,7%, samanborið við 3,8% í annarri atvinnustarfsemi að stóriðju og fjármálastarfsemi undanskilinni.
- Samanburður á arðsemi íslenskra orkufyrirtækja og orkufyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum bendir til að hún sé talsvert lakari hér á landi. Á því tímabili sem skoðað var (2000-2006/8) var arðsemi af fjármagni sem bundið er í orkuvinnslu og dreifingu eftir skatta í námunda við 10,8% í Bandaríkjunum og um 7% í Evrópu en einungis um 2,4% á Íslandi.
- Í Evrópu og Bandaríkjunum standast orkufyrirtæki arðsemiskröfu betur en aðrar atvinnugreinar. Íslensk orkufyrirtæki standast hana þriðjungi verr en aðrar íslenskar atvinnugreinar.
- Kostnaður vegna kaupa á kolefniskvótum getur haft umtalsverð áhrif á arðsemi orkufrekra fyrirtækja sem losa gróðurhúsalofttegundir.
- Miðað við líklegan náttúrukostnað af dæmigerðum virkjanaframkvæmdum er þjóðhagsleg arðsemi þeirra sennilega umtalsvert minni en hefðbundnir arðsemisreikningar (sem ekki taka tillit til umhverfisspjalla) gefa til kynna.
- Stóriðja jókst mjög að fyrirferð í hagkerfinu fram á 2008. Ný álver tóku til starfa og verð á áli og orku hækkaði mikið um tíma. Þá hafa framkvæmdir við stóriðju kynt undir þenslu á vinnumarkaði undanfarin ár. Miklar sveiflur eru í þessum geira. Í júni 2009 er verð á áli og rafmagni frá stóriðju rétt rúmur helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra í dollurum talið. Tekjur íslenskra orkufyrirtækja minnka að sama skapi og niðursveifla í efnahagslífinu verður meiri en ella.
Allt er þetta í takt við þá gagnrýni sem sett var fram vegna virkjunar Kárahnjúka og væntanlegra virkjana til orkuöflunar vegna álvers í Helguvík. Það er ljóst að farið hefur verið offari í þessum efnum og þessar niðurstöður gefa ekki tilefni til þess að halda áfram á sömu braut. Á þeim viðsjártímum sem þjóðin fer nú gegnum verður að staldra við og kasta ekki auðlindum, fé og tækifærum á glæ eins og ljóst er að gert hefur verið. Nú þarf að fá sem mest út úr öllum okkar tækifærum til sölu á orku, sjávarafla, hugviti og þjónustu sem verða má. Eins þarf að huga að því að hér verði hægt að framleiða mat, grænmeti, eldsneyti og annað sem gæti orðið torfengið fyrr en okkur grunar. Stefnan hlýtur að vera á sjálfbært land og vinnu þar að lútandi þarf að setja í forgang ekki síðar en núna.
Skýrslan í heild sinni
Birt:
29. júlí 2009
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Mat á arðsemi orkusölu til stóriðju“, Náttúran.is: 29. júlí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/07/28/mat-arosemi-orkusolu-til-storioju/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. júlí 2009
breytt: 29. júlí 2009