Kæri Náttúrunnandi

Vefurinn Náttúran.is hefur sannarlega haldið mér og mínu samstarfsfólki á iði á síðastliðnu ári. Viðhorfin eru önnur en fyrir ári síðan. Umhverfismál eru ekki lengur sérviskumálefni sem fólk hváir yfir að við séum að eyða öllum tíma okkar í heldur eru þau nokkuð sem enginn getur lengur lokað augunum fyrir og þykja meira að segja spennandi. Það er í sjálfu sér mjög ánægjulegt, þó að alvarleikinn sem blasi við okkur sé langt frá því að vera gleiðilegur.

Nú þegar langþráðri Loftslagsráðstefnu kenndri við gestgjafa sinn, Kaupmannahafnarborg, er lokið er nokkuð ljóst að framsýni og samstarfsvilji er ekki það sem lætur jörðina snúast né kælir hana niður. Gapið milli ríku og fátæku þjóðanna er að birtast okkur og kannski má segja að fátæku þjóðirnar hafi nú loksins fengið svið til að láta í sér heyra. Auðvitað er þeim misboðið og ekki af ástæðulausu. Hvað vitum við um það sem að þau hafa þurft að líða fyrir á meðan gengdarlaus græðgin reið húsum á Vesturlöndum.

En auðvitað er losun gróðurhúsalofttegunda ekki bara eitthvað sem að stjórnvöld eiga að stemma stigu við og bjarga fyrir okkur hin. Hver og einn einstaklingur er ábyrgur fyrir því sem hann lætur af sér leiða, í öllu sem hann gerir á lífsleiðinni.

Náttúran.is hefur frá stofnun ásett sér að vera leiðandi afl til breyttra lifnaðarhátta með umhverfisvitund að leiðarljósi. Bæði fyrir einstaklinga og fyrirtækin sem þeir stýra. Við tökumst á við það hlutverk með tilhlökkun og förum inn í þriðja ár í rekstri með nýjan Náttúruvef með nokkuð breyttu sniði, þáttum og virkni. Við stefnum að því að vefurinn verði einfaldari í notkun og opnari fyrir aðsendu efni og föstum pennum sem halda úti þáttum tengdum afmörkuðum viðfangsefnum. Einar Bergmundur, tæknistjórinn okkar, situr sveittur við að forrita daginn inn og nóttina út svo að ný i vefurinn geti birst ykkur þann 1. janúar 2010.

Af nýjum þáttum má nefna að Hildur Hákonardóttir verður dugleg í Eldhúsgarðinum og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir sinnir Náttúrubörnunum. Ef þú hefur áhuga á að gerast fastur penni, vilt senda inn efni eða vinna beint með okkur að þróun nýrra liða þá vertu í sambandi strax þ. 2. janúar 2010. Þangað til óskum við þér og þínum gleðilegrar jólahátíðar, friðar og farsældar á nýju ári.


Kærar kveðjur,

Guðrún Arndís Tryggvadóttir
frumkvöðull að Náttúrunni.is.

Birt:
23. desember 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jólakveðja frá Náttúrunni“, Náttúran.is: 23. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/22/jolakveoja-fra-natturunni/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. desember 2009
breytt: 23. desember 2009

Skilaboð: