Samgöngur
Heimurinn er allur á iði og stór hluti af okkar daglega amstri felst í að skjótast á milli staða. Og jafnvel þótt við myndum stoppa þá streyma vörurnar til okkur frá öllum heimsins hornum. Þessi flutningur á fólki og vörum er það sem við köllum samgöngur. Eðli og uppbygging vestrænna hagkerfa byggir á greiðum og ódýrum samgöngum. Samgöngur fara fram með margvíslegum hætti en alltaf kostar það orku að fara á milli staða.
Orkunotkun og losun gróðurhúsaloftegunda er mál málanna í dag og því er mikil áhersla á orkusparnað og mengunarlitlar samgöngur. Fallegasta samgönguformið fellst í því að ganga, svo einfalt er það. Maðurinn er byggður til að ganga og hreyfa sig og því er það nauðsynlegt heilsunnar vegna að ganga og hreyfa sig, minnst klukkutíma á dag. Gangan breytist í hlaup þegar okkur liggur á og með tækjavæðingu nútímans má skella sér á hjólaskauta eða hlaupahjól. Að sjálfsögðu eru til rafmagnshjólaskautar, rafmagnshlaupahjól, Segway og ellinöðrur, allt til þæginda, skemmtunar og til að stækka radíusinn. Þessi „farartæki“ koma manni á allt að 25 km hraða á hljóðlausann og sparneytinn hátt.
Hjólreiðar eru sennilega einhver hagkvæmasti og orkunýtnasti ferðamáti sem völ er á. Í góðu veðri á jafnsléttu má ná 40 km hraða á klst og allt að 80 km á klst niður brekku. Á rafmagnsreiðhjóli getur lítt þjálfaður einstaklingur haldið sama hraða og umferðin á venjulegum götum, jafnvel við erfiðar aðstæður og brekkur og mótvindur hætta að skipta máli. Það er alveg ljóst að því léttara sem farartækið er, þeim mun sparneytnari er það. Vespur og mótorhjól eru dæmi um hraðan samgöngumáta sem virkar vel í yfirfylltum borgum. Ekki er víst að allir treysti sér að bruna um á slíkum hjólum en nú eru komnar þriggja hjóla vespur, með tvö framdekk og eitt afturdekk. Á hægum hraða stendur hjólið í lappirnar og ekkert mál að halda jafnvægi né þarf að setja fótinn niður í kyrrstöðu. Á meiri hraða virkar þríhjólið eins og venjuleg vespa. Með rafmótor væri slíkt hjól úrvalslausn fyrir styttri ferðir.
Fólksbíllinn
Það er fátt sem slær fólksbílnum út í þægindum, hraða, öryggi og fjölhæfni. En þægindin kosta, bílar eru dýrir og verðið á eldsneytinu hækkar og hækkar. 48% af flatarmáli Reykjavíkur fer undir samgöngumannvirki og bílastæði, stærstur hluti þess eru götur. Auðvitað eru göturnar nýttar undir fleiri farartæki en fólksbíla en þeir eru lang fyrirferðamestir. Til að ná niður eyðslu og mengun hafa bílaframleiðendur reynt margar mismunandi aðferðir. Evrópubandalagið hefur lagt mikla áherslu á þróun díselvélarinnar og Japanir þróuðu hybrid lausnir. Nú eru allir að þróa sína útfærslu af ofursparneytnum bílum.
Vöruflutningar
Mjög mikil orka er notuð til vörufluttninga. Vörur eru fluttar heimshorna á milli í flutningaskipum. Því stærri skip, því minni orkunotkun hlutfallslega. Fyrir kreppu gilti það að vera fljótur í förum og skipin voru hönnuð til að ganga á 80% af hámarksafli vélar. Upp úr kreppu snarminnkuðu flutningar. Því er siglt á 30-40% vélarafli, ferðalagið tekur lengri tíma en olíunotkunin minnkar. Einnig er reynt að þróa segl á nútíma farmskip til að nýta vindinn, bæði flekafallhlífar og mastursegl. Það sem gildir er að hafa alsjálfvirkan tölvustýrðan búnað.
Flugvélar
Stöðugt er unnið að endurbótum á flugvélum til að gera þær sparneytnari. Nýjasta breytingin eru lóðréttir vængendar.Þeir virka loftfræðilega eins og vængurinn sé lengri en hann er í raun og veru. Lengd vængja takmarkast nefnilega af plássi á stæðum við flugstöðvarbyggingar en ekki af loftfræðilega hagkvæmustu lengd. Með lóðréttum vængenda fæst betri virkni vængsins og minni iðustraumar sem geta verið hættulegir öðrum smærri flugvélum. Vængenda má jafnvel setja á eldri flugvélar. Önnur tækni til bættrar nýtingar eru flugvélar úr léttari efni. Nýjustu flugvélar eru smíðaðar úr koltrefjaplastefnum sem eru mjög sterkar miðað við þyngd. Þriðja aðferðin til að bæta nýtinguna er breytt hönnun þotumótora. Ein aðferðin er að stækka stóra blásarann fremst á þotumótornum en um leið að gíra hraða hans niður. Þannig eykst hjáloftið í 12:1 miðað við 8:1 í dag. Þetta þýðir aukin nýtni. Fjórða aðferðin væri gerbreytt hönnun flugvéla, t.d. fljúgandi vængir. Neytendur hafa samt síðasta orðið. Með því að versla vöru sem framleidd er í heimabyggð má komast hjá því að eyða orku í óþarfa flutning.
Innviðir
Allar samgöngur kosta orku, bæði beint og óbeint. Orkan fer ekki bara í að knýja áfram öll þessi farartæki heldur er einnig bundin í samgöngumannvirkjum. Flutningurinn á öllum þeim tonnum af jarðvegi og grjóti sem fara í vegalagningu kosta heilmikla orku, olían sem er bundin í malbikinu og einnig orkan í þeim hráefnum sem fóru í smíði farartækjanna. Í undirlagi vega má blanda mulið gler og steypubrot og slá þannig tvær flugur í einu höggi, losna við byggingarúrgang og minnka efnisflutninga. Eins má endurvinna allt malbik sem rifið er upp. Með vel hönnuðum og vönduðum samgöngumannvirkjum má spara orku þeirra sem ferðast um. Það að fínstilla umferðaljós og skapa grænar ljósabylgjur kostar ekki mikið miðað við þann sparnað sem slíkt leiðir af sér.
Samskipti
Annar mikilvægur þáttur í vestrænum samfélögum eru samskipti. Fyrir mörgum öldum fólust öll samskipti í sér að aðilar urðu að hittast. Síðan kom pósturinn til sögunnar, síminn, faxið, tölvupóstur, GSM, SMS, ... Smart spæjari vísaði veginn með innbyggðan skífusíma í skónum sem þótti það flottasta á sjöunda áratugnum. Aukin tækni í samskiptum getur minnkað þörfina fyrir samgöngur. Fjarfundarbúnaður, samtöl með mynd í farsímum, skrifstofuveggir geta orðið skjáir og samskiptatæki. Þetta höfum við séð í Star Trek en nú er þessi tækni að verða raunveruleg. Vinnufélagar og fjölskyldumeðlimir geta búið hver í sinni heimsálfu en verið samt í nánum daglegum samskiptum. Fjarlægðir hætta að skipta máli en þess í stað verður klukkan og tímabeltin mikilvægari.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Einarsson „Samgöngur“, Náttúran.is: 19. júlí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/samgngur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 19. maí 2014