Hugtakið Ecological Footprint (vistfræðilegt fótspor) er notað um mælieiningu þess sem við mennirnir þurfum/notum mikið af landi á líftíma okkar, bæði til að koma á móts við neyslu og til að taka á móti sorpinu sem frá okkur kemur, miðað við þá tækni sem nútíminn bíður upp á við öflun og förgun. Mælieiningin sýnir hvað við skiljum eftir okkur og er umfram sjálfbært líf, sem væri í þessu samhengi sama sem núll eða enginn hektari lands.

Ef við skiptum Jörðinni niður á íbúana sem eru í dag um 6,5 milljarðar, fengi hver íbúi um 1,78 hektara. Það er ef að heimurinn væri sanngjarn, sem hann er auðvitað ekki. Sem dæmi um raunveruleikann má nefna að meðalmaður í Bandaríkjunum notar sem samsvarar 9,57 hekturum lands á líftíma sínum en Evrópubúi sem heldur neyslu sinni í skefjum og lifir „umhverfisvænum lífsstíl“ notar samt um 4,8 hektara. Indverjar nota minnst eða 0,5 hektara.

Ef að við reiknum með því að 300.000 Íslendingar eyði svipað og meðal-Ameríkani (sem er ekki fjarri lagi eða?) þýðir það að við séum að ganga á 2.871.000 hektara eða 28.710 km2 af Íslandi, þ.e. þriðjung landsins, nú þegar. Ef allir notuðu jafn stóran hlut og Ameríkanar og við Íslendingar, þyrftum við Jarðarbúar að eignast fleiri hnetti til að búa á eða þrjár jarðarkúlur til viðbótar þeirri sem við erum að ganga á núna. Á árinu 2001 fór mannkynið að nota um 1,2* af getu Jarðar eða um 20% meira en hún þolir. Athugið að þetta var árið 2001 og Jörðin sjálf hefur ekki stækkað neitt eða bætt við getu sína til að gefa af sér né taka við síðan.

Þessir útreikningar gera ráð fyrir því að Jörðin sé ekki aðeins eitt allsherjar yfirráðasvæði mannsins og gert er ráð fyrir því að aðrar dýra- og plöntutegundir þurfi einnig sitt lífrými, enda gætum við ekki lifað án þeirra heldur. Svo þessi 12% sem þeim eru ætluð eru auðvitað aðeins reiknað þeim á eigingjörnum forsendum, ekki vegna manngæsku eða vegna virðingar fyrir líffræðilegri fjölbreytni.

*miðað við að 1 sé geta Jarðar.
Til að skoða þetta nánar farið á: ecofoot.org, zerofootprint.net, footprintnetwork.org.

Grafík: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
7. september 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvað eru fótspor í umhverfinu?“, Náttúran.is: 7. september 2010 URL: http://nature.is/d/2008/02/16/hvao-er-fotspor/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. febrúar 2008
breytt: 7. september 2010

Skilaboð: