Einar K. Guðfinnsson fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði það að einu af sínum allrasíðustu embættisverkum, nú í morgun, að leyfa aftur hvalveiðar með setningu reglugerðar um hrefnu- og langreyðaveiðar. Reglugerðin á að gilda til ársins 2013 en samkvæmd henni má veiða 150 langreiðar og 100 hrefnur árlega.

LÍÚ fagnaði en fjöldi aðila hafa lýst óánægju sinni með ákvörðunina þ.á.m. Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands en hann vandar Einari K. Guðfinnssyni fráfarandi sjávarútvegsráðherra ekki kveðjurnar. Árni hafði búist við að Einar gæfi kannski út heimildir fyrir 20 hrefnur en þetta kom honum algerlega á óvart. Spilling og misnotkun á valdi segir Árni.

„Þetta er spilling og hann er með þessu að misnota sér valdheimildir og í raun að stunda skemmdarverkastarfsemi. Hann er að eyðileggja fyrir þeirri ríkisstjórn sem er að taka við völdum og hann er með þessu að skemma ímynd Íslands og fyrir samskiptum Íslands við umheiminn, og þá sérstaklega evrópusambandsríkin," segir Árni.

„Hann er að þjónusta það útgerðarvald sem hann hefur beygt sig í duftið fyrir hingað til. Og þá er ég að tala um kvótakóngana sem hann ætlaði eitt sinn að takast á við en gafst upp þegar hann komst í embætti. Þetta lýsir ekki miklum manndómi."

Árni segir að fáránlegast í þessu öllu saman sé að gefnar séu út veiðiheimildir til næstu fimm ára sem staðfesti það að Einar sjái ekki fram á komast í ríkisstjórn næstu fjögur árin.

„Ég er mjög hissa og það er skrþtið að hann skuli gera þetta núna þegar hann er að bíða eftir því að vera leystur af. Hver svo sem það verður sem tekur við af honum þá vona ég að sá hafi dug til þess að afnema þessa ákvörðun."

Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn (IFAW) lýsir einnig furðu sinni og vonbrigðum með ákvörðunina:

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum. Þar segir einnig að samtökin hafi lagt áherslu á samvinnu við Íslendinga um uppbyggingu á hvalaskoðun í tvo áratugi en um 115.000 manns fóru í slíkar ferðir á síðasta ári. Þar með hafi skapast jákvæður valkostur í stað hvalveiða sem geta skaðað ímynd Íslands og efnahag.

„Hvalveiðar eru grimmdarlegar og ónauðsynlegar fyrir Íslendinga“ segir Sigursteinn. Það er engin þekkt leið til að drepa jafn stór dýr í hafinu á mannúðlegan hátt.

„Ákvörðun ráðherrans í morgun mun vekja hörð viðbrögð víða um heim nema að hún verði fljótt afturkölluð. Allar helstu viðskiptaþjóðir Íslendínga hafa mótmælt hvalveiðum við Ísland formlega og að ESB er alfarið andvígt veiðunum“.

Sigursteinn Másson talsmaður IFAW á Íslandi hvetur nýjan sjávarútvegsráðherra eindregið til að draga til baka þessa örvæntingarfullu ákvörðun fráfarandi ráðherra enda þjóni hún alls ekki hagsmunum Íslendinga.

Birt:
27. janúar 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Leyfði hvalveiðar á síðustu metrunum“, Náttúran.is: 27. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/27/leyfoi-hvalveioar-sioustu-metrunum/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: