Flugeldar, björgunarstarf og umhverfið
Náttúran.is skoraði fyrir þarsíðustu áramót á söluaðila flugelda á landinu öllu (sjá áskorunina) að sýna ábyrgð og taka það upp hjá sér að upplýsa viðskiptavini sína um umhverfisáhrif er af flugeldum og blysum hljótast og hvetja til réttrar meðhöndlunar á því mikla magni úrgangs sem hlýst af sprengigleði landans. Því er skemmst frá að segja að margir dyggir stuðningsmenn björgunarsveitanna tóku þessu afar illa og fannst að sér vegið. Þó var tilgangur áskorunnar einungis að minna á að björgunarsveitirnar sjálfar gætu haft frumkvæði að jákvæðri umræðu og hvatt til ábyrgðar og hvetja til flokkunar. Umræðan um umhverfisáhrif af bruna flugelda og rétta förgun hrökk í gang og mikill fjöldi fólks sá ástæðu til að setja orði í belg hér á vefnum auk þess sem viðtal var tekið við mig á Rás 2. Með því að taka málið til umræðu virtist Pandoru-boxið hafa verið opnað upp á gátt. Það verður því áhugavert að fylgjast með því hvort að neikvæð umhverfs- og heilsuáhrif af flugeldum verði til umræðu annars staðar í þjóðfélaginu í ár.
Málið snýst fyrst og fremst um það að allir taki ábyrgð á sínum gjörðum, þeir sem selja, þeir sem kaupa, þeir sem sjá um sorpið og ekki síst þeir sem eiga að sjá um umhverfismennt í þjóðfélaginu. Náttúran.is er einmitt einn af þeim aðilum sem að vilja sjá um það síðastnefnda, þ.e. upplýsa um umhverfisþáttinn. Hluti af upplýsingagjöf og skapandi umræðu byggir á því að velta upp möguleikum um úrlausnir eða betrumbætur. Þúsund tonn af eiturefnum og úrgangi kemur okkur öllum við og fyrst á dagskrá er að skoða stöðuna eins og hún er í dag.
Undanfarin ár hefur mikil aukning orðið í sölu flugelda, (jafnvel þrátt fyrir hrunið) en jafnframt hafa einkaaðilar komið inn á svið sem að björgunarsveitirnar töldu sitt áður. Þetta gremst björgunarsveitunum því að sala flugelda er aðaltekjulind sveitanna. Þó má segja að með aukinni samkeppni hafi aukning í sölu fylgt í kjölfarið svo það er ekki víst að minni peningar komi í kassann en áður.
Nú á tímum mikillar umhverfisvakningar um allan heim og á öllum sviðum neyslu og viðskipta þarf að taka til endurskoðunar þá mengun sem við mennirnir berum ábyrgð á. Einstaklingar jafnt sem fyrirtæki í framleiðslu, þjónustu og sölu verða því að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Ef allir taka ábyrgð gengur dæmið upp, annars ekki. Þetta eru staðreyndir málsins.
Umhverfisáhrif af sprengingum flugelda, hvort sem er hljóðmengun, loftmengun eða efnamengun er nokkuð sem að þarf að róta upp og rannsaka. Framleiðsla og flutningar valda einnig gífurlega neikvæðum áhrifum. Flugeldar eru flestir framleiddir í Kína, við aðstæður sem að ekki teljast til fyrirmyndar út frá heilsu- og siðgæði. Í grein á vef Neytendasamtakanna sem birtist fyrir þremur árum síðan er m.a. talað um þetta atriði og að sjálfsögðu um mengunina og ábyrgð innflytjenda. Þar segir m.a.: Púður er auðvitað mikilvægt hráefni í flugeldaframleiðslu en til að flugeldar geti skartað fallegum litum eru notuð ýmis kemísk efni og þungmálmar. Til að fá grænan lit er notað baríum, rauður fæst með strontíum, gulur fæst með því að nota natríum og hinn vandasami blái litur krefst þess að notaður sé kopar sem er varasamur í meðförum.
Fyrirspurnir okkar til Sorpu bs. í Reykjavík og Flokkunar ehf. í Eyjafirði hafa leddu í ljós að í raun sé ekkert gert til að flokka rakettu- og sprengikökuruslið þannig að það fer allt til urðunar. Því sem skilað er á endurvinnslustöðvarnar fer beint í óendurvinnanlegt rusl en varað er við að fólk fylli almennar ruslatunnur af rakettum því það orskar vandamál við sorphirðuna. Frekar eigi að koma ruslinu beint á endurvinnslustöðvarnar.
Ef að við reiknum með að 50% af dótinu komist í ruslið, 30% hafi eyðst við bruna og 20% sé skilið eftir á viðavangi þýðir það að 500 tonn af sprengiefnaafgöngum séu urðuð hér á landi árlega. Nærri má geta að kostnaður við að urða 500 tonn af sprengiefnaafgöngum sé nokkuð hár fórnarkosntaður en sveitarfélögin sjálf þurfa að reiða fram það fé vegna sprengigleiði landsmanna. Sveitarfélögin eru að sjálfsögðu að stórum hluta rekin af útsvari okkar, s.s. við greiðum brúsann að lokum.
Að sögn Guðmundar Tryggva Ólafssonar framkvæmdastjóra Sorpstöðvar Suðurlands eru urðunarstaðir flestra sveitarfélaga þannig úr garði gerðir að þungmálmar og önnur skaðleg efni komast ekki í grunnvatn svo draga má þá ályktun að áhættuþátturinn liggi aðallega í því rusli sem liggur óhirt á víðavangi. Guðmundur Tryggvi segir ennfremur að ekki sé sannað að flugeldarusli (nema það ósprengda) skapi neina sérstaka umhverfislega áhættu sem slíkt og að í flestum tilfellum sé allt eitur fuðrað upp. Áhættuþátturinn liggur að hans mati aðallega í slysahættunni, sérstaklega fyrir börnin sem fyrir utan auðvitað að heillast af sprengingu flugeldanna á Gamlárskvöld, laðast þau að flugeldaruslinu dagana á eftir, eins og mþ á mykjuskán. Eins og flestir muna sjálfsagt eftir frá æskusárum sínum.
Svifryksmengun í Reykjavík fór á síðustu þremur árum upp í 500 míkrógrömm á rúmmetra en heilsuverndarmörk liggja á bilinu 50 míkrógrömm á rúmmetra. Fólk almennt, ekki bara börn og asmtasjúklinar eru því í bráðri hætti við slík skilyrði. Á vef Umhverfisstofnunar er hægt að fylgjast með loftmengun.
Tölur um loftmengun liggja ekki fyrir en miðað við að þúsund tonn af sprengiefni fuðri upp á gamlárskvöldi og ný ársnótt ætti að vera hægt að fá tölur um koltvísýringslosun og losun annara skaðlegra efna. Sprurning hve mikið að losunarkvóta Íslands rúmist þar í?
Sjá viðmið Náttúrunnar fyrir þungmálma.
Sjá meira um endurvinnslu um jól og áramót.
Sjá á vef Sorpu hvað gera skal við ný ársruslið
Grafík: Flugeldar, brunnir flugeldar, sprengiterta og brunnin sprengiterta, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Flugeldar, björgunarstarf og umhverfið“, Náttúran.is: 28. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/20/flugeldar-bjorgunarstarf-og-umhverfio/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. desember 2009
breytt: 27. desember 2012