Á Íslandi er til aragrúi upplýsingakorta og vefsjáa með upplýsingum um allt milli himins og jarðar, allt frá staðsetningum brunahana í Reykjavík; reykjavik.is/borgarvefsja til upplýsinga um fjölda einstaklinga á biðlista um pláss á öldrunarheimilum í Kaldrananeshreppi: heilsuvefsja.is.

Mest notuðu kortin eru þó líklega kort sveitarfélaga þar sem íbúar geta nálgast upplýsingar um sína heimabyggð sem og vefsjár sem þjónusta ferðamenn eins og t.d; nat.is og enjoyiceland.is

Flestar eiga þessar vefsjár það sameiginlegt að vera mjög einfaldar í notkun og flestar eru þær með mjög líkt notendaviðmót og bjóða uppá svipaða möguleika til upplýsingaöflunar.  Eitt eiga þær einnig mjög margar sameiginlegt en það er hve ófullkomnar upplýsingar eru á þeim. Svo virðist sem margar stofnanir og sveitarfélög hafi ákveðið að koma sér upp vefsjá á internetinu en gleymt eftirfylgninni, þ.e að koma öllum upplýsingum inná vefsjána. Augljóst má vera að með þessu móti eru vefsjárnar oft hvorki fugl né fiskur og í raun stundum bara tímasóun að skoða þær. 

Frá ofangreindu eru sem betur fer undantekningar eins og glögglega má sjá á þessum vef:  reykjavik.is/borgarvefsja. Hann er sérstaklega vel unnin og aðgengilegur og greinilega reglulega uppfærður með nýjustu upplýsingum.

Náttúran.is aftur á móti er með kort sem að mörgu leiti sameinar öll önnur kort sem til eru, auk þess sem það er með upplýsingar sem eru einstakar á Íslandi. 

Græna Íslandskortið/Green Map á natturan.is er unnið samkvæmt hugmyndafræði greenmap.org sem gengur út á skráningu og kortlagningu svæða í borgum, bæjum og löndum með hugmyndir umhverfisstefnu og sjálfbærni að leiðarljósi. 

Náttúran hefur í dag skráð á korti sínu yfir 3.000 aðila á landinu öllu, tengda eftir mismunandi yfirflokkum sem eru 12 að tölu eins og Menning, Útivera, Umhverfisupplýsingar o.fl. Undirflokkar eru 100 að tölu, dæmi um undirflokka eru t.d: Grænir skólar (107), óhefðbundnar lækningar (45), útsýnisskífur á landinu (39), menningarsetur (189), leiksvæði í náttúrunni og margt fleira.

Allar skráningar á Náttúran.is eru fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum að kostnaðarlausu jafnt á vefkortin sem og á prentuð grænkort en nú er önnur útgáfa af Grænu Reykjavíkurkorti að líta dagsins ljós og verður dreift um borgina á næstu vikum.
Ljóst er að græn kort Náttúrunnar eru að mörgu leiti lengra komin en flest önnur kort á Íslandi, sérstaklega hvað varðar fjölda skráninga og ekki síður hvað varðar fjölda grænna skráninga en í þeim skráningum kemst engin með tærnar þar sem Náttúran.is er með hælana.

Birt:
20. júní 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Magnús Matthíasson „Vefsjár og upplýsingakort á Íslandi“, Náttúran.is: 20. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2009/11/30/vefsjar-og-upplysingakort-islandi/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. nóvember 2009
breytt: 20. júní 2011

Skilaboð: