Landsnet hefur sett upp vef til þess að kynna áform sín um uppbyggingu öflugs og öruggs flutningskerfis raforku á Suðvesturlandi. Sjá grein. Lykilorðið hér er “öflugs” því áformin eru vægast sagt stórkarlaleg og ganga langt út fyrir þarfir almennings og almenns atvinnulífs.
 
Ég fæ ekki séð að þetta snúist um almannahagsmuni þar sem almenningur og öll hefðbundin atvinnustarfsemi kæmist ágætlega af með mun fyrirferðarminni mannvirki. Hugmyndirnar á vestur hluta svæðisins helgast öðru fremur af áformum um álver í Helguvík, sem óvíst er hvort rísi sbr. t.d. frétt á Smugunni. Sjá frétt.
 
Talað er um verkefnið sem: “endurnýjun og styrkingu raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi”. Það að ekki skuli koma fram að verkefnið sé öðru fremur (a.m.k. á vestur hluta svæðisins) til þess að fullnægja þörfum álvers í Helguvík gefur tilefni til þess að óttast að stefnt sé á að velta kostnaðinum (sem er 22 milljarðar króna á verðlagi í ágúst 2008) yfir á almenning. Það væri þá ekki í fyrsta skiptið sem við fengjum að niðurgreiða raforku með einum eða öðrum hætti til stóriðjunnar. Því hefur kerfisbundið verið haldið á lofti að Suðrnesjalína sé fulllestuð og að afhendingaröryggi á Suðurnesjum sé ófullnægjandi og því þurfi úrbætur á kerfinu. Þarna er hálfur sannleikurinn sagður en til þess að hinn helmingurinn sé hafður með þá er rétt að taka það fram að Suðurnesjalínan er fulllestuð vegna þess að Reykjanesvirkjun er að framleiða raforku fyrir Norðurál á Grundartanga. Það er því sama hvernig dæmið er sett upp allt snýst þetta um orkuflutninga fyrir Norðurál en ekki um þjónustu við almenning. Þvert á það sem haldið hefur verið fram þá myndi hófleg uppbygging á orkufrekri starfsemi á Suðurnesjum (t.d. eitt netþjónabú) bæta afhendingaröryggi svæðisins þar sem aukin notkun á Suðurnesjum myndi draga úr álaginu á Suðurnesjalínu.
 
Mikilvægt er að staðinn verði vörður um það að almenningur verði ekki látinn borga þann kostnað sem þessu myndi fylgja. Nóg hefur á almenningi dunið, svo ekki sé nú meira sagt.
 
Þá er rétt að taka fram að inn á myndir Landsnets vantar allar tengingar við Krþsuvíkursvæðið en hér er mynd sem sýnir hverskyns hugmyndir þar eru uppi: Sjá mynd á vef Landverndar. Þeir sem til þekkja vita að orkuflutningaáformin í Krþsuvík myndu valda gríðarlegum spjöllum nái þau fram að ganga.

Birt:
2. desember 2008
Höfundur:
Bergur Sigurðsson
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Bergur Sigurðsson „Orkuflutningar fyrir stóriðju ekki almenning“, Náttúran.is: 2. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/02/orkuflutningar-fyrir-storioju-ekki-almenning/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: