Í sumar ætla Landvernd og Ferðafélag Íslands að halda uppteknum hætti og ferðast um jarðhitasvæði á suðvesturhorninu í fylgd jarðfræðinga. Fyrsta ferð verður farin 30. maí og er áætlað að ganga um gossprungusvæði vestast á Reykjanesskaga. Önnur ferð er áætluð 13. júní og verður þá farið að Ölkelduhálsi og gengið í Reykjadal þar sem ferðalöngum gefst kostur á að baða sig í heitri Varmánni og að síðustu 4. júlí verður farið að Trölladyngju þar sem gengið verður um hin litríku Sog og að Hvernum eina. (Sjá nánari lýsingu hér að neðan.)

Leiðsögumenn í ferðum sumarsins verða jarðfræðingarnir Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson. Þeir starfa báðir á Náttúrufræðistofnun og eru þeir meðal höfunda skýrslu um háhitasvæði á Íslandi sem unnin var í tengslum við gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Áfangastaðir sumarsins eiga það sameiginlegt að búa yfir merkum jarðminjum og einstakri náttúrufegurð, auk þess að vera álitnir gjöful orkuvinnslusvæði. Tilgangur okkar er að fræðast um jarðfræði Reykjaness og njóta um leið útivistar í einkar sérstæðri náttúru. Hugmyndir um að stofna eldfjallagarð á Reykjanesi hafa lengi verið við lýði og má lesa sig til um það efni á vef Landverndar.

Ferðirnar eru í boði Landverndar og Ferðafélags Íslands og eru þær ferðalöngum að kostnaðarlausu.
Vinsamlegast skráið þátttöku á vef Ferðafélagsins: www.fi.is eða sendið póst með upplýsingum um nafn, netfang og síma á fi@fi.is

Reykjanes - Reykjanestá - Gunnuhver

Sunnudagur 30. maí kl. 10.00-17.00
Brottför frá Mörkinni 3
Leiðsögumenn Sigmundur Einarsson og Kristján Jónasson, jarðfræðingar

Ekið á Reykjanes um Hafnir. Litast um við Reykjanesvirkjun. Gengið frá bílastæði við Reykjanesvita vestur að gossprungunni frá 1226 og skoðuð ummerki eftir gosið, en gossprungan var bæði á landi og í sjó. Gengið á Valahnúk og horft yfir brimurðina og Reykjanestá. Gengið að hverasvæðinu og litið á Gunnuhver og Reykjanes-Geysi. Skoðaðar skjálftasprungur. Ekið til baka um Grindavík. Nokkur ganga en ekki erfið.

Ölkelduháls - göngu- og baðferð
Sunnudagur 13. júní kl. 10.00-17.00
Brottför frá Mörkinni 3
Leiðsögumaður Kristján Jónasson jarðfræðingur

Ekið að Brúnkollublettum við Ölkelduháls og litast um. Gengið niður í Reykjadal og hverasvæðið skoðað. Bað í Reykjadalsá. Gengið áfram niður dalinn og upp Hverakjálka til baka. Jarðskjálftasprungur skoðaðar á Bitru. Ekið til baka til Reykjavíkur. Nokkur ganga en ekki erfið.

Trölladyngja - gönguferð
Sunnudagur 4. júlí kl. 10.00-17.00
Leiðsögumaður Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Ekið að Trölladyngju um Afstapahraun. Gengið á Trölladyngju. Þaðan í Sog og að Djúpavatni og Grænavatni. Vestur yfir hálsinn að Hvernum eina og eftir Oddafelli að Höskuldarvöllum í rútuna. 6 klst. ganga.
Trölladyngja er austan við Höskuldarvelli. Frá vegi við rætur fjallsins er fremur létt ganga upp á dyngjuna og þaðan er fagurt útsýni yfir Sogin sem er afar litríkt hitasvæði sem er falið inni á milli fjallanna. Þar er litríkur hveraleir og grænn gróður sem kemur flestum á óvart sem koma þarna í fyrsta sinn.
Þarna er fjölbreytt og skemmtilegt landslag, vindsorfnar móbergsbríkur og klettar í margvíslegum myndum. Gengið verður vestan undir Núpshlíðarhálsi um fjölbreyttar gígaraðir að Selsvöllum sem er ein af helstu gróðurvinjum skagans. Þaðan er gengið að Hvernum eina og síðan tilbaka eftir Oddafelli. Gufurnar frá Hvernum eina sáust frá Reykjavík á góðviðrisdögum um 1890.

Birt:
19. maí 2010
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Reykjanesferðir Landverndar og Ferðafélagsins að hefjast “, Náttúran.is: 19. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/19/reykjanesferdir-landverndar-og-ferdafelagsins-ad-h/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. júlí 2010

Skilaboð: