Magn raforku sem sem framleitt er um allan heim úr endurnýjanlegum orkugjöfum hefur tvöfaldast á aðeins þremur árum, ef marka má nýjustu skýrslu frá alþjóðlegri rannsóknamiðstöð. Fréttasíða Carbon Positive greinir frá þessu.

Eftir því sem fram kemur í skýrslunni Renewables 2007 Global Status Report sem gefin er út af Renewable Energy Network for the 21st Century (REN21) eru nú framleidd 240 gigawött af endurnýjanlegri orku og starfa tæplega tveir og hálfur milljarður manns í iðnaðinum.

Fjárfesting í hreinni orku og eldsneyti nam 71 milljarði á síðasta ári, og halda sérfræðingar því fram að endurnýjanlegri orkugeirinn nái brátt þeim vexti að hann geti haft mælanleg áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum. Þetta segir Chris Flavin, forseti Worldwatch-stofnunarinnar, sem á aðild að REN21.

Sú endurnýjanlega orkutækni sem er í hröðustum vexti er sólarorkan, en framleiðslugeta geirans óx um 52% á síðasta ári og nemur nú 10 gígawöttum um allan heim. Vindorka óx um 28% en í þeim geira er hlutfallsleg fjárfesting einna mest, eða 47% af þeim 71 milljarði sem endurnýjanlegar orkulausnir deila mér sér, en um 30% er varið í sólarorku.

Mohamed El-Ashry, forseti REN21, hafði þetta um niðurstöður skýrslunnar að segja: "Svo mikið hefur gerst í endurnýjanlega orkugeiranum á síðustu fimm árum að margir stjórnmálamenn og álitsgjafar í orkumálum hafa dregist mjög aftur úr í upplifun sinni á raunverulegu ástandi hans í dag."

Að minnsta kosti 65 lönd í heiminum hafa sett sér lögbundin markmið um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap sínum, og sagði El-Ashry að þetta hefði haft mikið að segja í miklum vexti geirans. Framleiðsla á etanóli og öðru lífeldsneyti hefur vaxið um 43% á því tveggja ára tímabili sem mælt var.

Mesti vöxturinn í framleiðslu endurnýjanlegrar orku er á sviði sólarorku. Mynd af nrel.gov.
Birt:
2. mars 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Tvöföldun í notkun endurnýjanlegrar orku síðan 2004“, Náttúran.is: 2. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/02/tvofoldun-i-notkun-endurnyjanlegrar-orku-sioan-200/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: