Ólafur Áki Ragnarsson fyrrverandi bæjarstjóri Ölfuss hlýtur að hafa sett heimsmet í ótímabærum yfirlýsingum, gervisamningum og sýndarmennsku í stjórnartíð sinni. Hann var rekinn úr bæjarstjórastólnum af móðurflokki sínum Sjáfstæðisflokknum, en hyggst nú snúa aftur með nýju framboði undir merkjum A-listans. Sjálfstæðisflokkurinn býður einnig fram sem og tveir aðrir listar, B-listi framfarasinna (Framsóknarflokks) og Ö-listi félagshyggjufólks (sameiginlegt framboð Samfylkingar og VG).

Hér skal ekki tekin pólitísk afstaða til neins ákveðins flokks en ég vil gera að sérstöku umtalsefni þá endalausu sorgarsögu er blasir við þegar litið er yfir starfsferil Ólafs Áka Ragnarssonar s.l. átta ár og tilraunir hans til að þröngva „allt of stórum“ hugmyndum um atvinnuuppbyggingu upp á Þorlákshöfn. Hugmyndum sem komu honum sjálfum í kvöldfréttirnar því þær voru svo stórkarlalega og yfirgengilegar en náðu ekki lengra en það. Hvort sem við lítum á sérsamninginn við Orkuveitu Reykjavíkur (Sjá samkomulagið), bráðabirgða-tilrauna boranaleyfið og bráðabirgða vegagerðaleyfi á Stóra Skarðsmýrarfjalli og við Hverahlíð (lögleysa því engin leyfi með því nafni fyrirfinnast í stjórnsýslunni), álgarðshugmyndin sem síðan varð að álvershugmynd, kísilverksmiðju- og gagnavershugmyndir, allt hefur að engu orðið. Út frá umhverfis- og mannlífssjónarmiðum er nú reyndar ekkert sorglegt við að sumar af þessum hugmyndum hafi ekki náð í gegn en sorglega hliðin er að íbúarnir í Ölfusi og þjóðin öll hefur þurft að standa straum af kostnaði við sýndarmennskuna þegar upp er staðið.

Ólafur Áki Ragnarsson hefur heldur ekki sýnt svip hins góða granna gagnvart Hveragerðisbæ en Skipulags- og byggingarnefnd Hveragerðisbæjar lagðist alfarið gegn kynntum skipulagsbreytingum sem innihéldu m.a. Bitruvirkjun allt frá árinu 2007 og hefur talið hana afar skaðlega og standa möguleikum bæjarins sem íbúðar- og ferðamannasvæðis fyrir þrifum í framtíðinni. Svæðið er ennfremur á náttúruminjaskrá. 660 athugasemdir bárust gegn framkvæmdunum ef taldar eru athugasemdarbréfin sjálf en mun fleiri væru þeir er undirrituðu allir taldir með.

Vegna mikils þrýstings á Orkuveitu Reykjavikur um að hverfa frá hugmyndum um Bitruvirkjun var hún slegin út af borðinu tímabundið, í maí 2008, en áform um Hverahlíðarvirkjun látin standa. Innan náttúruverndarsamtaka, bæjarstjórnar Hveragerðis og þorra íbúa svæðisins var óformleg málamiðlun sú að berjast gegn Bitruvirkjun en leyfa Hverahlíðarvirkjun að fara í gegn. Eins konar kaup kaups. Ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um að setja Bitruvirkjun til hliðar var því vel tekið og nokkur sátt unnin í málinu. Að haldið var.

Þegar breytingar á aðalskipulagi Ölfuss voru síðan fram lagðar árið 2009, var auglýst eftir athugasemdum, eins og lög gera ráð fyrir, en Bitrivirkjun var inni á þeim. 1285 athugasemdir bárust í þetta sinn. Bæjarstjórinn í Ölfusi gerði lítið úr áhyggjum náttúruverndarsamtaka, Hveragerðisbæjar og fjölda íbúa í Ölfusi sem og Skipulagsstofnunar sem ályktaði gegn framkvæmdunum. Það skipti hann engu máli hvað hver sagði, hann væri einráður í Ölfusi og þar við sat. Yfirlýsingar hans í fjölmiðlum voru skólabókardæmi um yfirgengilegan dónaskap og valdníðslu síðustu ára. Hans eigin fullyrðing um að á aðalskipulagi hafi verið tekið tillit til athugasemda stenst ekki skoðun.

Samningur Ölfuss við Orkuveitu Reykjavíkur um forgangsrétt verkefna í heimabyggð á orkuna úr nýjum virkjunum á heiðinni var framlengdur um eitt ár þar sem hann átti að renna út í fyrra en rann út um síðustu mánaðarmót án þess að framlenging hafi verið samþykkt af hálfu Orkuveitunnar. „Enda liggi engir samningar fyrir sem gefa ástæðu til að ætla að sveitarfélagið hafi kaupanda að orkunni“. Slíkur er frægðarferill Ólafs Áka Ragnarssonar í starfi.

Er þetta það sem íbúar Ölfuss vilja kjósa yfir sig enn á ný?

Örfáar af þeim greinum sem birtar hafa verið hér á vefnum og snerta feril Ó.Á.R. fyrrv. bæjarstjóra Ölfuss með einum eða öðrum hætti:

Sannleikann ofanjarðar - lagnir neðanjarðar.
Sálarsamkomulag OR og Ölfuss.
Þorlákshöfn - Vinsæll viðkomustaður aðstandenda álfyrirtækja.
Ákall til Ólafs Áka.
Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun.

Til að sjá fleiri greinar sem snerta Ölfus, Ó.Á.R. og virkjanir á heiðinni, prufið að slá inn leitarorð í leitarreitinn hjá Voffa hér ofarlega til hægri á síðunni.

Ljósmynd: Frá kynningu frummatsskýrslu Bitru og Hverahlíðarvirkjunar í Hellisheiðarvirkjun þ. 04. október 2007, ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
21. maí 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bæjarfélagið Ölfus missir forgangsrétt á orku úr Hverahlíðarvirkjun, í annað sinn“, Náttúran.is: 21. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/21/baejarfelagid-olfus-missir-forgangsrett-orku-ur-hv/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: