Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. Helstu niðurstöður: Skipulagsstofnun telur að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði sjónræn áhrif og áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu.

Skipulagsstofnun telur að heildaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda m.t.t. þessara umhverfisþátta verði óhjákvæmilega verulega neikvæð. Þó að ljóst sé að það er jákvætt að tæplega 100 km af núverandi línum verða fjarlægðar þá eykst umfang raforkulína og mastra talsvert miðað við núverandi aðstæður þegar á heildina er litið.

Skipulagsstofnun telur að þegar litið er til heildaráhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verði áhrifin talsvert neikvæð þar sem nútímahraun munu raskast á óafturkræfan hátt á alls tæplega 30 ha landssvæði og nútímahraun eins og um er að ræða á áhrifasvæði framkvæmdanna, þekja lítinn hluta jarðar og sá gróður sem þar vex því frekar fátíður. Skipulagsstofnun telur að ný lagning lína geti haft talsverð neikvæð áhrif á fugla á löngum köflum fyrirhugaðar línuleiðar vegna áflugshættu og búsvæðaröskunar, auk þess sem línuleið mun á kafla liggja í nálægð við gamlan varpstað hafarna. Á móti koma jákvæð áhrif vegna fyrirhugaðs niðurrifs núverandi lína um Heiðmerkursvæðið. Það er því niðurstaða Skipulagsstofnunar að heildaráhrif á fuglalíf verði nokkuð neikvæð vegna lagningar Suðvesturlína.

Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði:
Landsnet þarf að leggja fram áætlun um vöktun á áflugshættu fugla á raflínur við Fóelluvötn, Snorrastaðatjarnir og í nágrenni Reykjanesvirkjunar. Í áætluninni þarf að koma fram að ákvörðun verði tekin um merkingar línanna í ljósi niðurstaðna í samráði við Umhverfisstofnun.

Álitið í heild liggur frammi hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Álit Skipulagsstofnunar má einnig sjá hér.

Mynd: Raflínur við álverið í Straumsvík, ljósmynd: Árni Tryggvason.

Birt:
Sept. 18, 2009
Höfundur:
Skipulagsstofnun
Uppruni:
Skipulagsstofnun
Tilvitnun:
Skipulagsstofnun „Suðvesturlínur myndu hafa neikvæð áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu“, Náttúran.is: Sept. 18, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/18/suovesturliknur-myndu-hafa-neikvaeo-ahrif-landslag/ [Skoðað:Feb. 28, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: