Bylgjupappi frá heimilum

Allur bylgjupappi, t.d. pappakassar og pitsukassar.
Bylgjupappa er hægt að þekkja af bylgjum sem sjást ef brúnir hans eru skoðaðar. Það er í lagi að bylgjupappinn sé áprentaður, plasthúðaður og litsterkur.

Hvað fer ekki í bylgjupappagám
Allur annar pappi t.d. morgunkornspakkar, skókassinn, eggjabakkinn, fernur og ýmsar umbúðir undan matvælum fer EKKI sem bylgjupappi.  Það er svo kallaður sléttur pappi en hann má setja í græna grenndargáma eða gám fyrir sléttan pappa (pappírsumbúðir) á endurvinnslustöðvum.
Það er mikilvægt að ekki fylgi með matarleifar eða aðrir aðskotahlutir. Það rþrir endurvinnslugildi pappans og leiðir til verðhruns á erlendum markaði.

Á flestum endurvinnslustöðvum eru gámar fyrir bylgjupappa.

Endurvinnsla – hvað er gert við hráefnið
Bylgjupappi er baggaður og vírbundinn. Hann er pressaður saman undir miklum þrýstingi í böggunarvélum í um það bil 900 kg. bagga. Þannig tekur hann margfalt minna pláss og hagkvæmara er að flytja hann til Svíþjóðar þar sem hann er endurunninn. Fyrirtækið IL recycling tekur við pappanum og sendir hann til nokkurra fyrirtækja í Svíþjóð til endurvinnslu. Það má endurvinna pappakassa allt að 7 sinnum. Einnig tekur fyrirtækið Inland við bylgjupappa til endurvinnslu og framleiðir úr honum pappa sem er notaður sem ysta lag á gifs einangrunarplötum.

Til fróðleiks
Á Íslandi falla til um 4 milljónir af pitsukössum árlega. Á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að á ársgrundvelli falli til hátt í 20.000 tonn af bylgjupappaumbúðum. Með því að flokka þessar umbúðir frá öðrum úrgangi er hægt að draga verulega úr því magni úrgangs sem fer til urðunar og jafnframt nýta fyrirtaks hráefni til endurvinnslu.
 
Birt:
28. mars 2007
Höfundur:
Uppruni:
SORPA bs
Tilvitnun:
NA „Bylgjupappi “, Náttúran.is: 28. mars 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. apríl 2007

Skilaboð: