Allt sorp flokkað í Stykkishólmi
Íslenska gámafélagið ehf. og Stykkishólmsbær hafa gert með sér samkomulag um flokkun sorps og moltugerð í sveitarfélaginu.
Stykkishólsbær hefur unnið ötullega að umhverfismálum í sveitarfélaginu og hefur metnaðarfulla umhverfisstefnu að leiðarljósi. Sjá frétt hér á vefnum frá í gær.
Fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi mun Stykkishólmsbær taka skrefið til fulls í flokkun sorps og hefja slokkun á sorpi og moltugera lífrænan úrgang frá öllum heimilum bæjarfélagsins.
Íslenska gámafélagið mun sjá um framkvæmd verkefnisins og fræðslu til bæjarbúa. Ráðgert er að hvert heimili hafi til ráðstöfunar þrjár tunnur. Til viðbótar við gráu tunnuna sem fyrir er, fær hvert heimili Grænu tunnuna sem ætluð er fyrir endurvinnanlegan úrgang svo sem pappa, pappír, fernur, plast og minni málmhluti. Innihald Grænu tunnunar verður síðan flokkað frekar og sent til endurvinnslu. Einnig fær hvert heimili brúna tunnu undir lífrænan úrgang heimilisins. Íslenska gámafélagið mun síðan losa brúnu tunnurnar og umbreyta lífræna úrgangnum í næringaríka moltu. Moltan verður síðan notuð í bæjarfélaginu við uppgræðslu og gróðursetningu.
Markmið verkefnisins er að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar um að minnsta kosti 60%.
Mynd og frétt af vef Íslenska gámafélagsins af undirritun samningsins. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri, Jón Þórir Frantzson framkvæmdastjóri Íslenska gámafélagsins og Gretar D. Pálsson forseti bæjarstjórnar.
Birt:
Tilvitnun:
Íslenska gámafélagið „Allt sorp flokkað í Stykkishólmi“, Náttúran.is: 16. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/16/allt-sorp-flokkao-i-stykkisholmi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. janúar 2008