Svenja Auhage, umhverfis- og vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur fyrsta erindi Hrafnaþings á þessum vetri. Erindi Svenju ber heitið „Fuglalíf á endurheimtum vötnum á Vesturlandi“.

Á síðustu öld tók votlendi miklum breytingum hér á landi vegna framræslu og ræktunar mýra. Á láglendi hafa mýrar víðast hvar verið ræstar fram og lítið er eftir af ósnortnu landi. Framræslan hefur haft mikil áhrif á votlendi; jarðvatnsstaða hefur lækkað og gróðurfar í mýrum breyst. Búsvæði votlendisplantna og dýra hafa orðið fyrir mikilli röskun.

Fyrstu tilraunir til endurheimtar votlendis hófust á Íslandi árið 1996. Árið 2008 hafði endurheimt verið reynd á mýrum, vötnum og tjörnum á um 20 stöðum á landinu. Frá árinu 2001 hefur Vegagerðin tekið þátt í endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerð.

Rannsóknir á fuglalífi á endurheimtu votlendi hafa verið mjög litlar hér á landi. Aðeins liggja fyrir fáar lýsingar og tegundalistar frá nokkrum endurheimtum svæðum. Hlynur Óskarsson við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem unnið hefur með Vegagerðinni að endurheimtarverkefnum, kannaði fuglalíf við Kolviðarnesvatn Syðra, tjarnirnar við Staðarhús og Saura fyrir og stuttu eftir endurheimt þessara svæða.

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Birt:
23. nóvember 2009
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Fuglalíf á endurheimtum vötnum á Vesturlandi“, Náttúran.is: 23. nóvember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/11/23/fuglalif-endurheimtum-votnum-vesturlandi/ [Skoðað:22. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: