Landvernd hefur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar er varðar álver á Húsavík
Landvernd hefur sent umhverfisráðuneytinu kæru þar sem krafist er ógildingar á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram heildstætt mat á umhverfisáhrifum álversins á Bakka og tengdra framkvæmda. Í kæru sinni tekur Landvernd undir með Umhverfisstofnun sem leggur áherslu á að meta eigi umhverfisáhrif framkvæmdanna sameiginlega.

Af hálfu sveitarstjórna og heilbrigðiseftirlits er talið æskilegt að sameina og samræma umfjöllun um þessar tengdu framkvæmdir eins og kostur sé með skilvirkum hætti. Það er skoðun Landverndar að skilvirkasta leiðin til sameiningar og samræmingar sé sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Alcoa, Landsnet, Þeistareykir og Landsvirkjun vilja hinsvegar ekki láta umhverfismat fara fram með heildstæðum hætti. Það er skoðun Landverndar að sýn Umhverfisstofnunar og sveitarstjórna á mál sem þessi eigi að vega þyngra en sýn fyrirtækja sem grundvalla ákvarðanir sínar og skoðanir út frá mun þrengri hagsmunum en þau stjórnvöld sem um málið fjalla.

Vandað verklag í áætlanagerð
Verklag við undirbúning framkvæmdanna er um margt gott og að framkvæmt skuli hafa verið heildstætt mat á skipulagsáætlunum varðandi áformaða orkuöflun og þá orkuflutninga til þarf, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, er til eftirbreytni. Með heildstæðu mati á umhverfisáhrifum áætlana fæst ágæt heildarsýn yfir virkjunarsvæðin og orkuflutningana sem ætlað er að til þurfi.

Nýlega hélt Skipulagsstofnun ráðstefnu þar sem fjallað var um reynslu af lögum um umhverfismat áætlana og þar kom fram að algengt sé að skipulag, sem felur í sér matsskyldar framkvæmdir, sé ekki unnið í anda laganna þar sem búið sé að taka lykil ákvarðanir áður en vinna við skipulagsbreytingar hefst. Slíkt verklag leiðir af sér að erfitt er að ná fram markmiðum laganna sem m.a. er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Hér hafa sveitarfélögin fjögur Aðaldælahreppur, Norðurþing, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit sýnt gott fordæmi í nálgun sinni á þetta stóra verkefni.

Helsti ágallinn
Landvernd telur þann galla helstann á ákvörðuninni að hugsanlegt álver Alcoa á Bakka skuli skilgreint sem orkunotandinn þó það sé utan þess svæðis sem umhverfismat áætlana náði til. Þá er litið á Alcoa sem hagsmunaaðila í málinu þrátt fyrir að fyrirtækið hafi enn ekki tekið ákvörðun um að byggja álver við Húsavík. Í ákvörðuninni er hvorki greint frá framleiðslugetu né orkuþörf hugsanlegs álvers og verður því að ætla að í þeim efnum ríki óvissa. Ýmislegt bendir til þess að ef úr yrði væri horft til þess að reisa 250.000 tonna álver eða stærra en Landvernd hefur heimildir fyrir því að Alcoa hafi áhuga á að byggja samskonar álver og á Reyðarfirði (345.000 tonn) en þá þyrfti að virkja allt að 700 MW.

Það er mat Landverndar að ekki sé fast í hendi að orkuöflun af því umfangi muni ganga eftir innan þess svæðis sem umhverfismat áætlananna náði til. Því gæti þurft að ráðast í fleiri virkjanir til þess að anna þörfinni. Hugsanlegir orkukostir eru þá Jökulárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót eða Jökulsá á fjöllum. Þjórsá gæti einnig ný st í þessum tilgangi en þá þyrfti væntanlega einnig að reisa háspennulínu yfir Sprengisand.

Lögmæti rannsókna í Gjástykki ekki hafið yfir vafa

Rannsóknarleyfi í Gjástykki var gefið út af iðnaðarráðuneytinu án þess að lögboðinnar umsagnar umhverfisráðuneytisins væri leitað, sbr. 4. tl. 5. gr. í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Lögmæti rannsókna sem hafa í för með sér jarðrask á því svæði er því ekki hafið yfir vafa. Landsvirkun sótti um leyfið fjórum dögum fyrir kosningar og var leyfið veitt af fyrrverandi iðnaðarráðherra Joni Sigurðssyni tveim dögum siðar. Áður hafði Landsvirkun sótt um rannsóknarleyfi í Gjástykki og fór sú um sögn í lögboðið ferli til umhverfisráðuneytisins en sú umsókn fól ekki í sér rannsóknir sem hafa í för með sér jarðrask.

Landvernd hefur lýst eftir afstöðu umhverfisráðuneytisins til leyfisveitingarinnar sem fram fór án lögboðinnar aðkomu umhverfisráðuneytisins og væntir þess að þeirri tilleitan verði svarað fjótlega. En þar sem ráðuneytið fékk ekki sína lögboðnu aðkomu að leyfisveitingunni telja samtökin rétt að ráðuneytinu verði veitt ráðrúm til þess að tjá sig um leyfisveitinguna áður en lengra verður haldið.

Breytt verklag hjá Skipulagsstofnun

Í kjölfar kæru Landverndar á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skyldi fara fram heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir allt austur að Ölkelduhálsi hefur Skipulagsstofnun tekið upp breytt og betra verklag. Þegar lögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt árið 2005 var sett í lögin svohljóðandi grein (2. mgr. 5. gr.):

„Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.“

Þann 13. febrúar s.l. tók stofnunin ákvörðun um að ekki skyldi fara fram mat á umhverfiáhrifum álvers á Bakka og tengdra framkvæmda og kynnti þá ákvörðun og tilgreindi kærufrest á heimasíðu sinni. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem ákvörðun á grundvelli þessa ákvæðis er tekið með gegnsæjum hætti en í málinu er varðar Helguvík var um það deilt hvort eða hvenær stofnunin tók afstöðu til þessa nýja ákvæðis. Niðurstaðan var sú að ákvörðun, skv. 2. mgr. 5. gr. laganna, var ekki tekin fyrr en í endanlegu áliti stofnunarinnar eins og áður segir.

Sjá vef Landverndar

Kort af háhitasvæðinu á Norðurlandi
Stórir gulir hringir: Meri háttar háhitasvæði í megineldstöð.
Minni gulir hringri: Minni háttar háhitasvæði, sum í megineldstöð.
Dökkrauðir hringir: Meiri háttar dyngja frá nútíma
Bleikur þríhyrningur: Meiri háttar grágrþtisdyngja
Rauðar rendur: Helstu gosreinar
Svört stjarna: Vinnsluleyfi fyrir hendi
Rauð stjarna: Rannsóknarleyfi fyrir hendi
Blá stjarna: Umsókn um rannsóknarleyfi óafgreitt
Græn stjarna: Ekki sótt um leyfi

Kortagerð: Guðrún Tryggvadóttir fyrir Landvernd.

Birt:
19. mars 2008
Höfundur:
Bergur Sigurðsson
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Bergur Sigurðsson „Landvernd kærir v. álvers á Bakka“, Náttúran.is: 19. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/19/landvernd-kaerir-v-alvers-bakka/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: