Prentsmiðjan hjá GuðjónÓ fær endurnýjað Svansleyfi sitt
Í frétt á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að prentsmiðjan hjá GuðjónÓ hafi fengið endurnýjað Svansleyfi sitt, í þetta skiptið fyrir prentsmiðjuna í heild, en reglum Svansins var breytt á síðasta ári, þannig að slíkt varð mögulegt.
Hjá GuðjónÓ, vistvæn prensmiðja, fékk fyrst vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins í ársbyrjun 2000. Skilyrði fyrir að fá Svansmerkingu eru hert á nokkurra ára fresti, (venjulega þriðja hvert ár) og hefur prentsmiðjan endurskoðað og aðlagað starfsemi sína og framleiðslu að strangari reglum. Skilyrði norræna umhverfismerkisins eru hert í samræmi við framýróun í umhverfismálum í prentiðnaðinum. Í skilyrðum Svansins eru gerðar kröfur sem ná til allra þátta prentunarinnar.
Prentsmiðjan hjá GuðjónÓ er einn hluthafa félagsins að baki vefjarins Náttúran.is og hefur frá byrjun trúað á mikilvægi þess að vefur af þessu tagi komist á legg hér á landi. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið í framvarðasveit umhverfisstarfs á Íslandi og með ráðum og dáðum reynt að stuðla að framgangi þess að umhverfisviðmið og vottanir fái vægi í íslensku viðskiptasamfélagi.
Hjá GuðjónÓ hlaut Umhverfisverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2000. Sjá hér á grænum síðum og grænu Íslandskorti meira um fyrirtækin sem hafa hlotið Umhverfisverðlaun Reykjavíkurborgar og þau fyrirtæki sem hafa Svansleyfi á Íslandi.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Prentsmiðjan hjá GuðjónÓ fær endurnýjað Svansleyfi sitt“, Náttúran.is: 21. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/21/prentsmiojan-hja-guojono-faer-endurnyjao-svansleyf/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. október 2008