Náttúran.is vinnur nú í samvinnu við Hildi Hákonardóttur að Eldhúsgarðinum, vefútgáfu af matjurtargarði fyrir heimilið, aðferð sem hugsuð er til að auðvelda fólki að skipuleggja matjurtargarðinn sinn.

Hnappur á Eldhúsgarðinn hefur nú verið virkjaður hér á síðunni en vinna við garðinn stendur nú yfir, bæði í raunverulegum Eldhúsgarði og við teikningar og forritun vefútgáfunnar. Athugið að vefútgáfan er á frumstigi og margt á eftir að birtast enn og allt fram á næsta ár koma nýir liðir í ljós.

Til þess að skapa sem raunsæjastan Eldhúsgarð vinn ég í moldinni meðfram tölvuvinnunni, og leitast við að framfylgja skipulagi Eldhúsgarðsins í þaula. Með reynslu þessa sumars í farteskinu má svo hugsanlega betrumbæta skipulagið og færa inn í vefútgáfuna.

Þeir sem vilja fylgjast með framgangi Eldhúsgarðsins hafi í huga að hér er um yfirvegaða tilraun að ræða sem á að hjálpa fólki og einfalda ræktunina en ef hún er í veginum fyrir skapandi hugsun er sjálfsagt að sleppa því að fylgja henni eftir, enda enginn einn heilagur sannleikur til í ræktun.

Við erum að reyna okkar besta til að koma ræktuninni í skipulagt kerfi en það er alveg víst að náttúran mun taka yfirhöndina og vinna eitthvað með okkur og eitthvað á móti en það var vitað áður en þróun Eldhúsgarðins hófst og gerir vinnu við þetta verkefni þeim mun meira spennandi.

Einar Bergmundur forritar Eldhúsgarðinn eins og allt annað hér á vefnum og þessi þrenning Guðrún, Hildur og Einar Bergmundur eru harðákveðin í að halda áfram störfum við Eldhúsagarðinn.

Fylgist með og sendið okkur endilega ykkar eigin hugmyndir og reynslusögur á nature@nature.is eða leggið orð í belg.


Ljósmyndir: Guðrún vinnur í raun-Eldhúsgarðinum í Hveragerði. Ljósmyndari: Daníel Tryggvi Guðrúnarson 10 ára.

Birt:
7. júní 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eldhúsgarðurinn virkjaður“, Náttúran.is: 7. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/06/07/eldhusarourinn-virkjaour/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. júlí 2010

Skilaboð: