Hófsóleyjar í Alviðru þ. 21. júní 2015. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Hófsóleyjar í Alviðru þ. 21. júní 2015. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Hófsóley [Caltha palustris] eða lækjarsóley er algeng á láglendi um allt land, lítið á hálendinu, nær þó stundum upp í 300-400 m inni á heiðum. Hæst fundin við jarðhita í 600 m hæð á Hveravöllum og í Landmannalaugum, í köldum jarðvegi hæst í 540 m hæð við Hágöngur í Vopnafirði.  Hún vex í mýrum, vatnsfarvegum og keldum og meðfram lygnum lækjum á flatlendi.  Hún er auðþekkt á hinum stóru, hóflaga blöðkum og gulum blómum.  Engin bikarblöð eru á blómunum. Nokkrar frævur sem verða að belghýðum, hvert um sig með nokkrum fræjum.*

Í Íslenskum lækningajurtum Arnbjargar Lindu Jóhannsdóttur segir m.a. um hófsóley;

Áhrif: Verkjastillandi, svitadrífandi, linar krampa, losar slím úr öndunarfærum og ertir hörund. 
Notkun: Hófsóley hefur lengi verið notuð til þess að eyða vörtum og var þá ferskum blómunum nuddað á vörturnar. Einnig voru fersk blöð lögð við sár til þess að hreinsa þau og græða. Hófsóleyjarte hefur löngum þótt gott krampalyf, bæði fyrir börn og fullorðna. Þá má nota hófsóley gegn slæmum tíðarverkjum.

Sjá meira um hófsóley á liberherbarum.com. Íslenskaða útgáfan er afurð samvinnu milli Náttúran.is og Liberherbarum.com og mun verða hluti af Grasagudduþættinum hér á vefnum innan skamms.
Sjá einnig á floraislands.is.

*Floraislands.is.

Ljósmynd: Hófsóley í skurði í Ölfusi þ. 26.05.2009, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
21. júní 2015
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hófsóley, lækjarprýði og lækningajurt“, Náttúran.is: 21. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2009/06/06/hofsoley-laekjarpryoi-og-laekningajurt/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. júní 2009
breytt: 21. júní 2015

Skilaboð: