Kaffitár með SvaninnKaffihús Kaffitárs hlutu vottun norræna umhverfismerkisins Svansins föstudaginn 14. maí til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Strangar kröfur Svansins tryggja að starfsemi Kaffitárs er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, veitti leyfið.

„Það er ánægjulegt að sjá hversu mörg fyrirtæki hér á landi sjá hag sinn í því að geta boðið upp á vottaða vöru og þjónustu. Það er ljóst að vistvæn innkaupastefna ríkisins hefur tilætluð áhrif sem lýsir sér í auknum áhuga á Svansvottun. Kaffitár er fyrsta kaffihúsið hér á landi sem fær Svansvottun á þjónustu sína en fyrirtækið hefur lengi lagt áherslu á umhverfismál og sanngjörn viðskipti (fair trade)“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

„Í kaffiheiminum er sífelld meiri áhersla lögð á umhverfisstarf í allri virðiskeðjunni frá baun í bolla. Okkar reynsla af umhverfisstarfi síðustu tvö ár er að það er fjárhagslegur ávinningur í að vinna samkvæmt virkri umhverfisstefnu. Það var því eðlilegt framhald fyrir okkur að vinna í að fá umhverfisstarfið vottað og skemmtilegt að það gat orðið með innleiðingu Svansins í kaffihúsum okkar. Gildi þjálfunar og símenntunar fyrir starfsfólki er einnig verðmætur þáttur í umhverfisstarfinu og hefur tekist einstaklega vel að virkja samstarfsmenn í nýju verklagi vegna Svansins. Allir hafa verið mjög jákvæðir og virkir, sem er lykilatriði í að innleiðingin gangi upp. Segja má að það sé samfélagsleg ábyrgð okkar að sýna vistvernd í verki og fá gesti kaffihúsa okkar virka með í það samstarf“ segir Stella Marta Jónsdóttir framkvæmdastjóri Kaffitárs.
Um Kaffitár

Kaffitár tók til starfa sem kaffibrennsla árið 1990 og fyrsta kaffihúsið var opnað árið 1995. Í dag eru kaffihúsin orðin átta talsins en Kaffitár hefur sinnt frumkvöðlastarfi við að kynna kaffimenningu fyrir Íslendingum. Svansvottun Kaffitárs tekur til starfssemi kaffihúsanna.

Kaffitár hefur unnið markvisst að því að fá viðskiptavini í lið með sér og lögð er mikil áhersla á að útskýra fyrir viðskiptavinum hvernig unnið er að umhverfismálum. Kaffihúsin hafa í sumum tilvikum gengið skrefinu lengra og bryddað upp á nýjungum sem stuðla að lágmörkun umhverfisáhrifa. Má þar nefna að veittur er afsláttur fyrir þá viðskiptavini sem koma með ferðabolla með sér þegar þeir kaupa sér kaffi sem ekki skal neyta á staðnum en það dregur stórlega úr notkun einnota mála.
Kröfur Svansins fyrir kaffihús og veitingastaði eru mjög strangar og þarf kaffihúsið að vera með gott heildaryfirlit yfir umhverfisáhrif starfseminnar:

  • Strangar kröfur eru gerðar til hráefna og matvæla en ákveðinn hluti hráefna þarf að vera lífrænt ræktaður og upplýsa verður neytendur um uppruna matvæla.
  • Einnota pappamál og borðbúnað má einungis nota við afgreiðslu á kaffidrykkjum og meðlæti sem ekki er neytt á kaffihúsunum.
  • Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktar vörum og þjónustu í innkaupum.
  • Flokkun úrgangs skal að vera góð og tryggja ber að allur hættulegur úrgangur fái rétta meðhöndlun.
  • Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að stýra umhverfisstarfinu.

Sjá þau fyrirtæki sem hafa Svansvottun hér á landi á Grænum síðum.

Sjá þá vöruflokka sem eru í boði af Svansvottuðum vörum hér á landi undir „Vörur/Vottað Svanurinn“ en í hverjum flokki finnur þú hvaða fyrirtæki flytja inn/dreifa viðkomandi vöruflokki og hvað vörurnar heita. Sé varan til nákvæmlega skráð til sölu eða kynningar er hana að finna í Svansbúðinni hér á Náttúrumarkaði. Samsvarandi flokkur er fyrir þjónustuflokkana undir „Þjónusta/Vottað Svanurinn“ hér á Grænum síðum.

Einnig er hægt að sjá gott yfirlit yfir aðilana hér á Græna Íslandskortinu í flokknum „Umhverfisvænar vörur“.

Birt:
18. maí 2010
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Kaffitár fær Svansleyfi, fyrst íslenskra kaffihúsa“, Náttúran.is: 18. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/18/kaffitar-faer-svansleyfi-fyrst-islenskar-kaffihusa/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. júní 2010

Skilaboð: