Landvernd gerir athugasemdir við auglýstar breytingar á aðalskipulagi Ölfuss en breytingin gerir m.a. ráð fyrir því að 285 ha opnu svæði á Bitru og Ölkelduhálsi verði breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun en jafnframt gert ráð fyrir nýju rannsóknar- og vinnslusvæði við Gráuhnúka. Svipuð tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Ölfuss 2002-2014, sem náði m.a. til virkjunarsvæða við Hverahlíð og Ölkelduháls, var áður auglýst 19. mars 2008 en þá bárust á annað þúsund athugasemdir.

1. Landvernd hefur lagst gegn áformaðri virkjun við Bitru og hafa samtökin kynnt framtíðarsýn um eldfjallagarð og fólkvang frá Þingvallavatni vestur um Reykjanesskagann og út í Eldey. Sú framtíðarsýn grundvallast á samþættingu fjögurra stoða, þ.e. náttúruvernd, útivist og ferðaþjónustu auk vinnslu á jarðhita og jarðhitaefnum. Í framtíðarsýn Landverndar er lagt til að orkuvinnsla fari fyrst og fremst fram á þeim svæðum sem þegar hefur verið raskað vegna slíkrar vinnslu og nýta mætti betur. Sú skipulagsbreyting sem lögð er til af hálfu sveitarfélagsins samræmist ekki framtíðarsýn Landverndar og því leggjast samtökin gegn áformuðum breytingum á skipulaginu. Um er að ræða dýrmætt útivistarsvæði í nágrenni við helsta þéttbýli landsins sem er að hluta til á náttúruminjaskrá og sökum nálægðar þessa útivistarsvæðis við þéttbýli höfuðborgarsvæðisins er um að ræða mál sem varðar með beinum hætti þorra landsmanna. Svæðið er fagurt og fjölbreytt og verðmæti þess mun vaxa á komandi árum ef því verður ekki raskað með breyttri landnotkun. Þúsundir innlendra og erlendra ferðamanna nýta sér svæðið árlega og fer þeim fjölgandi.

2. Landvernd leggur áherslu á varfærna og sjálfbæra nýtingu orkuvinnslusvæða þannig að auðlindinni verði ekki spillt. Einn af opinberum umsagnaraðilum um mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar var Orkustofnun, en stofnuninni er samkvæmt lögum ætlað að vera helsti ráðgjafi stjórnvalda í orkumálum.  Í umsögn Orkustofnunar um mat á umhverfisáhrifum Bitru- (135 MW) og Hverahlíðarvirkjunar (90 MW) dags. 9. nóvember 2007 segir m.a.: „Sérfræðingar Orkustofnunar lögðu til á Orkuþingi 2001 í erindinu Um sjálfbæra vinnsla jarðhita að vinnsla teljist sjálfbær ef unnt er að viðhalda óbreyttri orkuvinnslu frá kerfinu yfir mjög langt tímabil (100-300) ár. Því telur Orkustofnun eðlilegt í þessu sambandi að miða við 475 MW til 100 ára, að gefnum forsendum Orkuveitu Reykjavíkur um ný tni o.fl., ef miða skal við að stöðugt verði unnið úr Hengilssvæðinu þó einstök svæði verði látin hvíla eftir nokkra áratugi og ný svæði virkjuð. Nesjavalla- og Hellisheiðarvirkjanir munu samanlagt framleiða 400 MW og er þá vinnslan þegar komin nálægt þeirri vinnslu sem Hengilssvæðið getur líklegast staðið undir í 100 ár samfellt miðað við núverandi þekkingarstig.“

Ef tekið er mið af upplýsingum sem fram koma í Breytingu á Aðalskipulagi Ölfus 2002-2014 yrði raforkuframleiðsla Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu að viðbættum áformum um ný raforkuver samtals um 700 MW:

Miðað við álit Orkustofnunar eru þessi áform langt umfram það sem talist getur sjálfbær nýting orkulinda.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs segir m.a.: „Standa þarf vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum. Einn af hornsteinum umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar er að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti.“ Og einnig: „Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða. Orkustefnan styðji við fjölbreytt atvinnulíf, með áherslu á uppbyggingu vistvæns hátækniiðnaðar. Í orkustefnu verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.“

Landvernd bendir á að ekki eru neinar forsendur til frekari virkjunar raforku á Hengilssvæðinu miðað við sjálfbæra nýtingu svæðisins. Landvernd krefst þess að tillögur Sveitarfélagsins Ölfuss um breytingu á aðalskipulagi verði því dregnar til baka enda byggjast áform Orkuveitu Reykjavíkur um virkjun við Bitru á ágengri nýtingu jarðhitasvæðisins sem er í beinni andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og orkumálum.

3. Landvernd gerir athugasemd við þá forsendu sveitarfélagsins að „breyttar aðstæður í þjóðfélaginu“ réttlæti að tillaga að breytingu á aðalskipulagi þar sem gert er ráð fyrir Bitruvirkjun sé auglýst á nýjan leik. Íslenska hagkerfið gengur iðulega í gegnum sveiflur og þótt efnahagserfiðleikar séu óvenjumiklir sem stendur verður að líta til heildarhagsmuna og langtímahagsmuna þegar ákvarðanir um nýtingu landsins eru teknar.

4. Þá er rétt að koma því á framfæri að Landvernd hefur efasemdir um hæfi sveitarstjórnar til þess að fjalla um málið m.t.t. aðalskipulags. Sveitarfélagið hefur með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru“ svo vitnað sé til bókunar bæjarstjórnar 28. apríl 2006. Þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem vitnað er til í bókun sveitarstjórnar, og samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, eru m.a. þær sem tilgreindar eru í auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi. Ekki fæst því betur séð en að sveitarstjórn hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun sinni þann 28. apríl 2006, afsalað sér fullveldi til ákvörðunar í skipulagsmáli þessu. Að þessu ber sveitarstjórn að huga og taka afstöðu til hæfis síns, sérstaklega í ljósi ný legs úrskurðar samgönguráðuneytisins, dags. 31. 8. 2009, vegna samnings sveitarfélagsins Flóahrepps við Landsvirkjun.

5. Að lokum er bent á að íbúar í Hveragerði og forystumenn þess sveitarfélags hafa gert alvarlegar athugasemdir við áform um virkjun við Ölkelduháls. Koma þar inn, auk áður nefndra útivistar- og verndarhagsmuna, lögvarðir hagsmunir um loftgæði. Jafnvel þó Orkuveitu Reykjavíkur takist að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri virkjananna er ljóst að á byggingartíma, meðan holur blása, verður ekki komið í veg fyrir þá mengun. Í þessu máli væri eðlilegt verklag að vinna svæðisskipulag fyrir þau sveitarfélög sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 1. mgr. 15. gr. Skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Birt:
5. október 2009
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Athugasemd Landverndar við auglýstar breytingar á aðalskipulagi Ölfuss“, Náttúran.is: 5. október 2009 URL: http://nature.is/d/2009/10/05/athugasemd-landverndar-vio-auglystar-breytingar-ao/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: