Grand Hótel Reykjavík hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálstofu 2012
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru núylega veitt í 18. sinn og komu þau að þessu sinni í hlut Grand Hótel Reykjavík. Ólöf Ýrr Atladóttir, afhenti verðlaunin við athöfn á Ferðamálaþingi 2012 í Hörpunni.
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt frá árinu 1995 til ferðaþjónustufyrirtækja eða einstaklinga í ferðaþjónustu sem þótt hafa skara framúr á sviði umhverfismála. Verðlaunin eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem stunda ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri starfsemi sinni. Sjá hér á Grænum síðum hverjir hafa hlotið Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu frá upphafi.
Í fararbroddi í umhverfismálum
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2012. Grand Hótel Reykjavík. Fram kemur m.a. í rökum dómnefndar að Grand Hótel Reykjavík fékk Svansvottun fyrir skemmstu (sjá grein). Vottunin er nánast fullkomin trygging þess að hótelið uppfylli allt það sem þarf til að verðskulda umhverfisverðlaun Ferðamálastofu. Einnig hefur hótelið fengið vottun frá Túni vegna tiltekins hluta veitingasölu (sjá grein) og hefur þar með skapað sér enn frekari sérstöðu og fest sig í sessi sem ferðaþjónustufyrirtæki í fararbroddi í umhverfismálum á Íslandi. Auk þeirra atriða sem telja má nokkuð sjálfsögð þegar Svansmerkt hótel á í hlut hefur Grand Hótel Reykjavík lagt í mikla vinnu og kostnað til að lágmarka hættu á rafsegulmengun, en margt bendir til að slík mengun sé vanmetin sem áhrifaþáttur hvað heilsu manna varðar. Af öðrum einkar áhugaverðum og eftirbreytniverðum atriðum sem fram koma í tilnefningarskjalinu má nefna mikla áherslu á umhverfismennt starfsfólks, ársfjórðungslega skýrslu um árangur úrgangsflokkunar, tölulegar upplýsingar um minnkandi hlutfall sorps í úrgangi frá hótelinu, hjólaleigu, hjóla- og göngukort af umhverfi hótelsins og tölulegar upplýsingar um innkaup hreinsiefna.
Markviss fræðsla og upplýsingar til starfsmanna
Á Grand Hótel Reykjavík eru heildarumhverfisáhrif frá starfsseminni lágmörkuð eins og kostur er, stuðlað er markvisst að fræðslu og upplýsingum til starfsmanna og viðskiptavina um umhverfismál og umhverfisstarf hótelsins. Reynt er eftir fremsta megni að lágmarka orku- og vatnsnotkun, sem og að nota umhverfisvænar vörur og efni, kaupa inn vistvænar og lífrænt ræktaðar vörur og kappkostað er að nýta sér þjónustu og vörur úr nærumhverfi hótelsins.
Um umhverfisverðlaun Ferðamálastofu
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.
Ljósmynd: Frá verðlaunaafhendingunni. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Ólafur Torfason, Salvör Brandsdóttir og Ingólfur K. Einarsson, öll frá Grand Hótel og Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri Ferðamálastofu.
Birt:
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Grand Hótel Reykjavík hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálstofu 2012“, Náttúran.is: 11. desember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/11/grand-hotel-reykjavik-hlytur-umhverfisverdlaun-fer/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.