Eftirfarandi ávarp flutt Guðmundur M. H. Beck á ráðhústorginu á Akureyri þ. 25. október sl.

Ég finn mig knúinn til að ávarpa ykkur hér í dag. Við erum hér saman komin á alvarlegum tímamótum í sögu ungrar þjóðar. Á aðeins 17 árum höfum við lifað nýja Sturlungaöld þar sem misvitrir valdagráðugir menn hafa misbeitt valdi sínu og sóað auðlindum þjóðarinnar svo horfir við örbirgð komandi kynslóða ef ekki verður spyrnt við fótum.

Gamalt máltæki segir að oft ratist kjöftugum satt á munn og svo hefi ég mátt því miður reyna síðan ríkisstjórn Íslands og 44 alþingismenn samkvæmt fyrirmælum frá Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni gáfu út lög um hryðjuverkin á Austurlandi, Kárahnjúkavirkjun og álfabrikku Alcoa. Meira en 200 milljörðum af erlendu fé eða um 2 milljónum á hvert heimili var veitt inn í íslenzkt efnahagslíf og helmingurinn af því með ríkisábyrgð. Þetta reyndist hinum sprenglærðu fjárglæframönnum í höfuðborginni nægur eldsmatur til að kynda undir falsbréfasölunni og gefa út ávísanir á auðlindir Íslands út þessa öld. Síðan fengu þeir í hendur þjóðbankana og sjóði atvinnuveganna til að fullkomna áramótabrennu frjálshyggjukapítalistmans.

Ég sagði strax að þetta væru hryðjuverk gegn íslenzku samfélagi þar sem öllu er menn hafa verðið að reyna að byggja upp frá upphafi sjálfstæðisbaráttu var kastað í eldinn og Kárhnjúkahryðjuverkin yrðu myllusteinn um hálsinn á komandi kynslóðum. Það var einnig sárt að verða þess áskynja að ekkert nema sulturinn virtist geta kennt þjóðinni að velta af sér þessu oki og komast til raunveruleikans á ný .

Þeir sem vöruðu við afleiðingum hryðjuverkanna, græðgisvæðingunni, sóun auðlinda og viðskiptahalla voru kallaðir öllum illum nöfnum s.s. óvinir framfara, sérvitringar, talibanar, letingjar og sakaðir um að ætla að færa þjóðina aftur í torfkofana þar sem hún drægi fram lífið á fjallagrösum.


En hvar stöndum við nú? Ég sagði við upphaf Kárahnjúkahryðjuverkanna að verið  væri að færa íslenzka þjóð 70 ár aftur í tímann. Ég sé ekki betur en það sé að rætast með því að næstu kynslóðir sitja hér uppi með skuldahalann af óráðsíunni um ókomin ár.

Og hver eru ráðin sem brennuvargarnir gefa, t.d. Jón Hannibalsson og Halldór Ásgrímsson? Takið eftir því góðir tilheyrendur! Það eru sömu úrræði og eftir Sturlungaöldina fyrri, að koma íslenzkri þjóð undir erlent vald og að halda áfram skuldasöfnuninni og auðlindasóuninni. Þeir ætla að koma þjóðinni aftur undir erlent vald sem kostaði okkur fyrr, meira en sex alda áþján, svo þeir sjálfir geti hreiðrað um sig sem embættismenn þess sama valds og haldið þannig áfram að reyra ykkur í fjötra skulda og niðurlægingar.

Hlustið ekki á þessa menn sem leitt hafa þjóðina í verstu ógöngur af mannavöldum. Vonandi eruð þið að átta ykkur á að það var ekki verið að nýta auðlindir landsins í okkar þágu. Það var verið að sóa auðlindum og spilla landinu í þágu erlendra hergagnaframleiðenda og fámennrar valdastéttar falsbréfasalanna. Það var gert með valdníðslu, lögbrotum, mútum og mannfórnum. Það er ekki auðlindanýting að spilla fallvötnum og fiskimiðum og búa til 60 ferkm. leirflag á best gróna hálendissvæði Íslands með tilheyrandi loftmengun frá lóni og fabrikku. Það er ekki auðlindanýting að gefa hergagnaframleiðendum 20% orkunnar úr borholum háhitasvæðanna meðan mestur hlutinn rþkur út í andrúmsloftið með tilheyrandi loftmengun.

Nú rísum við upp og segjum hingað og ekki lengra. Það er þegar búið að gefa Gullfoss og Grímsey. Látum ekki þá sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum stjórna lengur. Líf okkar í nútíð og framtíð byggir á auðlindum fiskimiðanna og gróðurmoldarinnar ásamt þeirri lífsorku sem við fáum frá fegurð og hrikaleik landsins, ógnum þess og unaðsemdum. Þessum auðlindum verðum við að ráða sjálf ef við viljum skapa okkur vænlega framtíð í þessu landi. Hrindum af okkur oki þeirra manna sem vilja kasta frá okkur auðlindum landsins og sjálfstæði þjóðarinnar. Okkur ber að skila þeim til næstu kynslóðar svo hún geti fætt sig og klætt í þessu landi. Gleymið ekki spilltum verkalþðsleiðtogum sem hafa hrópað hæst á meiri auðlindasóun og lagt blessun sína yfir þrælahaldið og mannfórnirnar við Kárahnjúka í þágu auðvaldsins og heimta nú sem aldrei fyrr afsal sjálfstæðis þjóðarinnar og forræðis yfir auðlindunum.

Tökum höndum saman, ryðjum burt öskuhrúgunni og bykkjum upp réttlátt þjóðfélag sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda, samhjálp og jöfnuði. Látum gullglþjuna aldrei aftur teyma okkur út í foraðið. Látum aldrei af höndum forræði yfir auðlindum landsins. Okkur ber að skila þeim sem minnst spilltum til næstu kynslóða sem vilja búa hér við fæðu klæði og frið.

Íslandi allt!

Myndin er greinarhöfundi.

Birt:
27. október 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðmundur M. H. Beck „Hingað og ekki lengra!“, Náttúran.is: 27. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/27/hingao-og-ekki-lengra/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: