Vill að neytendur geti afþakkað fjölpóst
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, telur rétt að reyna til þrautar að ná samkomulagi um hvernig neytendur geti afþakkað fjölpóst og fríblöð. Skorar talsmaður neytenda á aðila að vinnuhópi Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um fríblöð og fjölpóst að reyna til þrautar að ná sem fyrst samkomulagi sem tryggir rétt neytenda til þess að afþakka fjölpóst - einnig þegar fjölpósti er skotið inn í fríblað. „Lagasetning er þrautalendingin en best er að semja um að neytendur geti einnig afþakkað fjölpóst sem skotið er inn í fríblöð,” segir Gísli. „Aðalefnisatriðið er að mínu mati að neytendur geti einnig hafnað fjölpósti - sem þeir, sem slíkt vilja, nefna stundum ruslpóst - sem fylgir sem innskot í fríblöðum. Annars munu neytendur og aðrir væntanlega líta á samkomulag eða lög um þennan rétt neytenda sem misheppnaða tilraun og innskot fjölpósts verður álitin sniðganga á slíku samkomulagi eða lögum.”
Innskot frípóstur eða ekki?
Að sögn Gísla hefur verið mismunandi afstaða innan vinnuhóps Póst- og fjarskiptastofnunar um hvort skuli líta á fjölpóst sem fylgir fríblaði sem innskot. „Samkomulagsleiðin gæti falið í sér að með því að afþakka fjölpóst teldist neytandi eða húsráðandi einnig afþakka fríblað þar sem fjölpóstur fylgir innan í sem sjálfstætt innskot,” segir Gísli. „Í ljósi þess að neytendur eiga ekki lögvarinn rétt á fríblaði er erfitt að standa fast á þeirri óskaniðurstöðu að samið verði um að neytendur geti þegið fríblað en afþakkað fjölpóst sem fylgir sama fríblaði.”
Birt:
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Vill að neytendur geti afþakkað fjölpóst“, Náttúran.is: 13. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/13/vill-ao-neytendur-geti-afthakkao-fjolpost/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.