Litir
Litir eru magnað fyrirbæri og hafa gífurleg áhrif bæði á sál og líkama. Það er því ekki hægt að komast hjá því að lýsa áhrifum þeirra hér í stuttu máli:
Rauður = Heitur litur, æsir upp, ekki ráðlegur litur fyrir órólegt barn en góður í hófi fyrir rólegt barn. Heilt herbergi í skærrauðum lit myndi þó vera allt of yfirgnæfandi. Það sama gildir um bleikan lit en hann er í rauninni hvítþynntur rauður litur.
Gulur = Heitur litur, lífgar, gleður og eykur bjartsýni, góður litur fyrir flesta. Skærgulur er þó nokkuð sterkur og ágengur fyrir heilt herbergi. Góður litur til að tempra niður.
Grænn = Tempraður litur, róar og jarðtengir. Grænn getur verið svo fjölbreytilegur, gulgrænn, blágrænn, ljósgrænn, mosagrænn en samt virka þeir allir róandi.
Blár = Kaldur litur, býr yfir ákveðnu jafnvægi og opnar rými en er samt svolítið kuldalegur einn og sér. Betra að tempra hann niður eða bæta aðeins grænu í hann.
Gott er að tempra liti niður með því að þynna þá með hvítu eða nota lagskipta málun (lasur). Hún gefur ákveðna dýpt og herbergið virkar ekki eins og lokaður kassi. Nokkrar aðferðir eru til við að mála lagskipt, t.d. með svampi og venjulegum vatnslit (úr ljósekta gæða-vatnslit) sem þynntur er út í fötu af vatni. Svampinum er síðan þrýst yfir hvítmálaðan veggflötinn. Það þarf aðeins smávegis af góðum vatnslit í túpu út í fulla fötu af vatni. Svampinum er þrýst á allan vegginn, síðan látið þorna og endurtekið tvisvar til þrisvar sinnum, eftir því hve maður vill hafa litinn dökkan. Best er að nota náttúrusvamp en krumpuð tuska gefur líka skemmtilega lífræna áferð.
Málning getur mengað loftið sem við öndum að okkur!
Umhverfisvottun tekur til framleiðslu málningarinnar og útöndun hennar þegar hún er komin á vegginn. Það er því tvímælalaust jákvæðara fyrir loftið í herberginu að velja umhverfisvottaða málningu t.d. Svansmerkta eða merkta Blóminu.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Litir“, Náttúran.is: 13. febrúar 2012 URL: http://nature.is/d/2007/06/25/litir/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. júní 2007
breytt: 13. júní 2014