Katla á lista SÞ um jarðvanga
Katla hefur verið valin á sérstakan lista Sameinuðu þjóðanna yfir framúrskarandi jarðvanga í heiminum. UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna valdi 9 staði af 16 sem sóttu um á lista yfir jarðvanga. Í frétt á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna í New York segir að jarðvangurinn Katla hýsi hinn víðfræga Eyjafjallajökul sem hafi sett flugumferð í heiminum á annan endann. Kötlusvæðið er sagt einkennast af jökulsorfnu landslagi og eldvirkni sem hafi áhrif á búsetu og því gegni vistvæn ferðamennska lykilhlutverki í sjálfbærri þróun.
Samkvæmt mati UNESCO eru framúrskrandi jarðvangar staði sem búa yfir einstöku mikilvægi í mennta- og vísindalegu tilliti, eru einstakir í sinni röð eða búa yfir sérstakri náttúrufegurð. Listanum, er ætlað að efla samvinnu í stýringu á nýtingu jarðfræðilegrar arfleiðrar heimsins. Auk Íslands voru jarðvangar í sjö löndum valdir á listann. Nú eru 87 staðir í 27 löndum á listanum.
Katla Jarðvangur var formlega stofnaðu 19. nóvember 2010. Jarðvangar eiga sér einungis rúmlega áratugasögu erlendis og nú hefur Ísland bæst í hópinn. Markmiðið með starfsemi jarðvangsins er m.a. að vernda og nýta jarðminjar svæðisins í þágu sjálfbærrar þróunar og eflingu byggðarinnar. Þróuð verði jarðfræðitengd ferðamennska á svæðinu sem byggi á fræðslu um jarðminjar, samspil manns og náttúru, og útivist.
Jarðvangurinn Katla tekur til sveitarfélaganna þriggja; Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps. Sótt var um aðild að Evrópska samstarfsnetinu um jarðvanga í nóvember 2010.
Sjá nánar um tilnefningarnar á vef UNESCO.
Grafík: Kötlugos af http://katlagos.wikispaces.com/
Birt:
Tilvitnun:
Rúv „Katla á lista SÞ um jarðvanga“, Náttúran.is: 23. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/23/katla-lista-sth-um-jardvanga/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.