Við hvað starfar þú eða hvert er viðfangsefni þitt?

Ég starfa sem formaður stjórnar Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hef unnið fyrir samtökin síðan 1997.  Hef einnig starfað semráðgjafi fyrir ýmis alþjóðleg samtök, Greenpeace, IFAW, Deep Sea Conservation Coalition, WWF og Pew Foundation. Í stuttu máli er mitt viðfangsefni að vera talsmaður náttúruverndar á Íslandi. Öfugt við stór samtök erlendis höfum við hvorki fjármagn né mannskap til að sérhæfa sig í einstökum málaflokkum.

Hvaða menntun eða reynslu hefur þú að baki?

Ég las stjórnmálafræði og alþjóðastjórnmál í Gautaborg og Lundi. Hóf störf fyrir Greenpeace í Gautaborg  árið 1987 og fullt starf fyrir Greenpeace International 1989 - 1996 með aðsetur í Gautaborg. Reynsla af alþjóðlegu umhverfisstarfi er mjög dýrmæt í mínu starfi. Náttúruverndarsamtök Íslands fengu fjárhagslega aðstoð frá World Wide Fund for Nature (Arctic Programme) á árabilinu 1998 - 2004 og við störfuðum með þeim samtökum sama tímabil. Stuðningur þeirra og reynsla kom okkur afar vel í náttúruverndarbaráttu hér heima.

Hvað lætur þig tikka?

Alþjóðlegt samstarf á mjög vel við mig. Bæði vegna þess að hið alþjóðlega starf er svo gefandi og vegna þess að slík reynsla nýtist ávallt hér heima. Ég sótti aðildaríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna 1999 til 2009 í Kaupmannahöfn þegar þjóðarleiðtogar heims brugðust kalli heimsbyggðarinnar um ábyrga afstöðu í loftslagsmálum. Alþjóðavæðingin er stundum gagnrýnd - vitaskuld - en alþjóðavæðing er líka samstarf samtaka almennings yfir allan hnöttinn. Í því sviði er nauðsynlegt að almenningur nái saman yfir landamærin.

Mín skoðun er að okkur hafi tekist hvað best upp þegar náttúruverndarbaráttan hér heima hefur tengst alþjóðasamfélaginu. Dæmi um það er Þjórsárver sem voru nánast uppgötvuð af Sir Peter Scott, stofnanda World Wildlife Fund. Sir Peter kom einnig að stofnun Skaftafellsþjóðgarðs en WWF lagði til fjármagn. Önnur dæmi eru Mývatn, Eyjabakkar og Vatnajökulsþjóðgarður. Stuðningur norskra náttúruverndarsamtaka gerði Norsk Hydro ljóst að Eyjabakkalón án undangengins mats á umhverfisáhrifum myndi skaða ímynd fyrirtækisins verulega.

Finnst þér að þú getir haft áhrif í samfélaginu?

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa tvímælalaust haft áhrif. Nýlega ákvað ríkisstjórnin að Torfajökulssvæðið verði tilnefnt til heimsminjaskrár UNESCO. Fyrir tíu árum áformuðu stjórnvöld að byggja þar jarðhitavirkjanir. Þjórsárverum hefur verið bjargað frá frekari virkjunarframkvæmdum, Vatnajökulsþjóðgarður er skilgetið afkvæmi baráttunnar gegn Kárahnjúkavirkjun og nýverið var Árósasamningurinn fullgiltur á Alþingi eftir meira en 10 ára baráttu, nudd og nuð. Bendi á að fólk gín ekki við lokkboðum Samtaka atvinnulífsins um frekari uppbyggingu stóriðju og virkjana til að bjarga hagvexti og atvinnustigi, að efnahagur heimilanna bjargast ekki fyrir tímabundna þenslu í kjölfar álvers á Bakka eða í Helguvík.

Hvað viðfangsefni finnast þér mikilvægust einmitt núna?

Að Rammaáætlun verði lokið með áherslu á náttúruvernd; að náttúrverndarlöggjöfin verði efld í samræmi við Hvítbók um náttúruvernd; að stefna ríkisstjórnarinnar mótist af orkusparnaði og samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Nýleg drög að orkustefnu bera með sér að auka verður verulega orkunýtni við fiskveiðar. Hvert sem við horfum er ljóst að olía er takmörkuð auðlind. Orkufrekar fiskveiðar eru ekki til framtíðar.

Ábyrg fiskveiðistjórnun er forsenda sjálfbærrar þróunar - það vitum nú eftir að hafa lent í forarpitti rányrkju umfram ráðleggingar vísindamana. Hið sama gildir á alþjóðavettvangi nema að úthöfunum er rányrkjan og gróðabrallið stjórnlaust. Á þessu sviði eiga íslensk stjórnvöld að taka stöðu með umhverfisverndarsamtökum sem leitast við að koma böndum á ólöglegar og fiskveiðar á úthöfunum.

Á hvaða stigi finnst þér náttúruvernd á Íslandi vera í dag?

Okkur hefur miðað töluvert undanfarin ár, afstaða almennings til náttúruverndar er jákvæð. Fólk er betur upplýst um umhverfismál og áhuginn er vaxandi, sbr. nýlega stórfundi í Háskólabíó með Vandana Shiva og Noam Chomsky. Fólk sækir upplýsingar á netið og tungumálakunnátta er æ minni hindrun. Á hinn bóginn hafa stjórnmálaöfl hægra megin miðju ekki áttað sig á mikilvægi þessa málaflokks. Að svo miklu leyti sem áreitið kemur utanfrá eru flestir stjórnmálaflokkar undir sömu sök seldir: hagsmunagæsla fyrir útgerð eða stóriðju gengur fyrir. Af hverju ver Jón Bjarnasons, Vinstri grænum, gjaldþrota hvalveiðistefnu Einars K. Guðfinnssonar, Sjálfstæðisflokki? Hverjar eru grænar áherslur Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs í sjávarútvegi, verndun hafsins?

Hvernig myndir þú vilja sjá vef Náttúrunnar þróast?

Við þurfum öflugan upplýsingavef um náttúruvernd og umhverfismál. Vef sem flytur fréttir og er vettvangur fyrir umræðu. Bæði fyrir okkar mál hér uppi á Íslandi, evrópska umræðu og alþjóðlega umræðu. Til eru slíkir vefir, sbr. Grist.org, E-Magazine eða ríkisreknir vefir líkt og naturvårdsverket.se Hið síðast nefnda er á vegum sænskra stjórnvalda en þar eð 'Umhverfisstofnun' Svíþjóðar er óháð ríkisstjórninni er sjálstæði stofnunarinnar mun meira en hér heima. Náttúran.is er í samkeppni við aðra fréttavefi en markaðurinn hér heima er svo agnarsmár. Þar af leiðandi verður að tryggja slíkri starfsemi óháða fjármögnun og þar með fullt ritstjórnarsjálfstæði. T.d. með peningum frá Íslenskum getraunum eða Pokasjóði.

Áttu þér uppáhalds málshátt eða lífsspeki?

Bandaríski körfuboltamaðurinn Julius Erving sagði einhvern tíma: „Being a professional is doing the things you love to do, on the days you don’t feel like doing them.” En lífið er of flókið fyrir einfalda málshætti. Fyrir margt löngu var slagorð Greenpeace: Get your children into the 21st Century, alive! Þá var kallt stríð og kjarnorkuvá. Enn er unnt að forða mannkyni frá algjöru visthruni. En - til þess höfum við ekki mörg ár. Stöðva verður hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 2°C, að meðaltali.

Kærar þakkir Árni!

Ljósmynd: Árni Finnsson, ©Karitas Sumati Árnadóttir.

Birt:
22. september 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Árni Finnsson „Náttúrubarnið Árni Finnsson“, Náttúran.is: 22. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/22/natturubarnid-arni-finnsson/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. september 2011

Skilaboð: