Föt og vefnaðarvörur á Náttúrumarkaði
Fatnaður er okkur mannfólkinu nauðsynlegur og stendur okkur næst i orðsins fyllstu merkingu. Húðin snertir efnið og því er mikilvægt að íhuga hvað við berum næst okkur. Mörg litarefni og framleiðsluferli fela í sér að efnið er meðhöndlað með sýruböðum, og eiturefnum af ýmsum gerðum, sumum jafnvel skaðlegum heilsunni. Eins er framleiðslan sjálf oft uppspretta alvarlegra umhverfisáhrifa og heilsutaps fólks. Sum efni eru umverfisvænni en önnur. Bómull er eitt skaðlegasta hráefnið sem notað er í föt vegna mikillar eiturefnanotkunar við ræktun þess. Fyrir hvert kg. af bómull sem er ræktað þarf um eitt kg. af eiturefnum. Sé hins vegar valin lífrænt ræktuð bómull (IFOAM) þá er eiturefnanotkun næstum bönnuð og notkun skaðlegra efna við meðhöndlun efnanna haldið í algeru lágmarki. Sanngirnisvottun (Fair Trade) er staðfesting á því að varan er unnin á siðferðislega sanngjarnan hátt, án skaðlegra áhrifa fyrir starfsmenn og að þeir fái sanngjörn laun fyrir vinnuna. Fatnaður endist lengur sé vel um hann hirt og skór sem eru pússaðir geta enst í mörg ár. Það er sparnaður af að kaupa gæðafatnað, þó að hann sé dýrari. Ódýr föt og skór spara til lengri tíma ekkert því þú þarft í staðinn að fjárfesta nokkrum sinnum til að uppfylla sömu þörfina.
Grafík: Tákn fata- og skódeildar Náttúrumarkaðarins, hönnun: Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran er ehf.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Föt og vefnaðarvörur á Náttúrumarkaði“, Náttúran.is: 19. febrúar 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/02/ft-og-skr-nttrumarkai/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. nóvember 2007
breytt: 28. mars 2014