Lífrænt hráfæði í neytendaumbúðum - viðtal við Jóhann Örn hjá Organic.is
Fyrir nokkrum vikum fékk nýtt fyrirtæk, Organic lífstíll ehf., lífræna vottun frá vottunarstofunni Tún (sjá grein) og í kjölfarið setti fyrirtækið fyrstu lífrænu hráfæðivörur sínar á markað. Það er ekki á hverjum degi sem að lífrænar hráfæðivörur eru framleiddar fyrir íslenskan markað og af því tilefni spurði Náttúran Jóhann Örn, einn eigenda fyrirtækisins nokkurra spurninga um þetta merka framtak.
Hverjir standa að Organic.is?
Kristján Kristjánsson og fjölskylda hans og Jóhann Örn Bjarnason og fjölskylda hans.
Geturðu sagt okkur frá hugmyndafræðinni á bak við viðskiptahugmyndina?
Í fyrstu var í raun aldrei nein viðskiptahugmynd. Þetta var áhugamál hjá okkur fjölskyldunum og okkur langaði að prófa þessa framleiðslu og netverslun
Hvenær byrjuðuð þið að hafa á huga á hráfæði og í framhaldi af því hvað varð til þess að þið fóruð út í að þróa vörur og framleiða?
Höfum verið meira en minna á lífrænu grænmetisfæði frá árinu 2005 og upp úr því var byrjað að prufa hráfæðiskúra svo óx þetta smátt og smátt hjá okkur. Hráfæðiskökur eru næringarríkt góðgæti og hafa þær verið borðaðar allt að því daglega í gegnum árin. Því má segja að ómeðvituð þróun hafi verið lengi í gangi.
Hvað eruð þið að framleiða margar vörutegundir og hverjar eru þær?
Í dag erum við að framleiða 3 vörutegundir, hnetufreistingu, eplafreistingu og krakkafreistingu. Kókosfreisting og bananafreisting er svo væntanleg á markað fljótlega eftir áramót. Áætlum að setja á markað um 20 vörutegundir.
Er þetta byrjunin á einhverju miklu stærra?
Vörurnar hafa nú verið fjórar vikur á markaði og seljast vel. Hvort eitthvað stórt sé framundan verður tíminn að leiða það í ljós. Við erum uppfull af lífrænum hugmyndum J
Hvenær áætlið þið að opna vefverslunina?
Áætlað er að koma henni í gagnið sem fyrst, í allra síðasta lagi í desember.
Hvernig verður hún byggð upp?
Vefsíðan mun verða mjög aðgengileg og byggð upp á sem einfaldasta máta svo að notendur geti auðveldlega skoðað sig um á síðunni. Hún verður byggð uppá fréttum, greinum, uppskriftum, fróðleik auk vörusölunnar sjálfrar.
Munið þið koma til með að afgreiða ferskvörur í gegnum vefverslunina líka?
Nei það gengur því miður ekki.
Hvar fást vörurnar ykkar í dag?
Í dag fást þær í Heilsuhúsunum, Lifandi mörkuðum, Yggdrasil Rauðarárstíg, Fjarðarkaup, Hagkaupsverslunum, Nóatúnsverslunum, Kosti, Víði, Melabúðinni, World Class Laugum og Hreyfingu.
Hvað telur þú að standi helst í vegi fyrir því að fólk fari út í að framleiða hágæða lífrænar vörur á Íslandi í dag?
Kannski helst skortur á fjármagni og tíma hjá fólki. Þetta er tímafrek framleiðsla og gefur seint af sér. Þá gæti líka lítil þekking á lífrænum matvörum og gæðum þeirra haft eitthvað að segja.
Hvaða ráð gefur þú öðrum sem dreymir um að láta verða af viðskiptahugmyndum sínum?
Hætta að hugsa og framkvæma.
Kærar þakkir Jóhann og gangi ykkur sem allra best!
Ljósmyndir: Efsta myndin er af Jóhanni Erni við framleiðsluna en neðri myndirnar sína Hnetufreistingu, með og án umbúða en umbúðirnar eru 100% niðurbrjótanlegar, úr maíssterkju og sykurreyr.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lífrænt hráfæði í neytendaumbúðum - viðtal við Jóhann Örn hjá Organic.is“, Náttúran.is: 15. október 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/15/lifraent-hrafaedi-i-neytendaumbudum-vidtal-vid-joh/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. nóvember 2011