Sólblóm og sólblómaspírur
Sólblómafræ eru ein sú fullkomnasta fæða sem völ er á en ef þú leyfir þeim að spíra margfaldast næringargildi þeirra. Þau eru stútfull af próteinum og C vítamíni og fleiri efnasamböndumn og auðveldara er að melta spíruð fræ en óspíruð. Spírur af sólblómum henta vel t.d. í græna drykki, salöt og bara til að steita úr hnefa því þau eru mjög safarík og bragðgóð ein og sér.
Það er auðvelt að láta sólblómaspræ spíra. Hildur Hákonardóttir kenndi mér ráð sem virkar mjög vel en það er að leggja fræin fyrst í bleyti í hálfan til einn dag og útbúa síðan bakka (tilbúnir sáðbakkar eru mjög hentugir) með um 1-2 sm lagi af góðri gróðurmold, lífrænni auðvitað, í bakkann og vökva vel. Strá síðan sólblómafræjunum yfir moldina og leggja farg ofan á í 2-3 daga eða svo. Fargið getur verið gömul tímarit eða bylgjupappi sem sniðin er til og þekur allan bakkann vel. Síðan leggur þú eitthvað þungt ofan á fargið en athugaðu að það sé þá eitthvað sem þolir raka.
Eftir 2-3 daga hafa fræin spírað, eru komin með hvítan hala (spíru) og þá er tími kominn til að taka fargið ofan af og leyfa blómabörnunum að plumma sig í sólbjörtum glugga. Vökva verður vel og jafnvel leggja plastfólíu yfir bakkann (eða glært lokið af sáðbakkanum) í nokkra daga, sérstaklega ef þú getur ekki fylgst með litlu skinnunum allan daginn.
Á nokkrum dögum vaxa síðan upp falleg kímblöð á stilk og eru þá tilbúin til átu þegar þau eru u.þ.b. 5 -7 sm há. Þá klippir þú þau niður eða klípur eitt og eitt af þeim þroskuðustu við rót og leyfir þeim sem styttra eru komnar á lífsins braut að spjara sig áfram. Þannig getur þú verið að fá lifandi sólblómaspírur í marga daga samfleytt.
Hægt er að kaupa litla poka eða stærri sekki af svörtum lífrænum sólblómafræjum í Hagkaupum í Smáralind og kannski víðar.
En sum af fræjunum sem ég lét spíra í vor leyfði ég að vaxa áfram hingað og þangað og uppskar fjöldann allan af risastórum gullfallegum sólblómum til að dást að. Þær fengu að vera úti að njóta sólarinnar þar til þær dóu drottni sínum seint í haust og ég þakka náttúrunni fyrir að fá að hafa notið þeirra og lifað með þeim í sumar.
Ljósmyndir: Efri mynd; sólblómaspírur í sáðbakka í maí sl. Neðri mynd; útsprungið sólblóm þ. 3. sept. sl. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sólblóm og sólblómaspírur“, Náttúran.is: 5. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2011/09/12/solblom-og-solblomaspirur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 12. september 2011
breytt: 1. janúar 2013