Organic Lífsstíll ehf. fær vottun til lífrænnar framleiðslu
Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækið Organic Lífsstíll ehf. uppfylli kröfur um lífrænar aðferðir við framleiðslu á matvælum. Vottorð þessa efnis var formlega afhent eigendum fyrirtækisins þann 7. september 2011.
Organic Lífsstíll ehf. er fyrsta sérhæfða fyrirtækið hér á landi sem hlýtur vottun til lífrænnar framleiðslu á svonefndu hráfæði.
Með vottun Túns er staðfest að Organic Lífsstíll ehf. noti einvörðungu viðurkennd lífræn hráefni við framleiðslu á hinu vottaða hráfæði, að aðferðir við vinnslu og pökkum matvælanna samræmist alþjóðlegum reglum um lífræna framleiðslu, og að gæðastjórnun, skráningar og merkingar uppfylli settar kröfur.
Organic Lífsstíll ehf. er nýtt fyrirtæki með aðsetur í Hafnarfirði. Fyrirtæki hefur vottun til framleiðslu á sjö tegundum unninna neysluvara sem allar teljast til svokallaðs hráfæðis, en þrjár þessara vörutegunda eru væntanlegar á markað þessa dagana.
“Fyrirtækið er tvíþætt, annars vegar netverslun organic.is þar sem fram fer sala á lífrænum vörum og hinsvegar framleiðsla á lífrænum mat og hráfæði”, segir Jóhann Örn Bjarnason annar eigandi fyrirtækisins. Hann bætir við að vottunin muni “tvímælalaust styrkja fyrirtækið og vörur þeirra þar sem vaxandi eftirspurn sé eftir lífrænt vottuðum vörum. Vottunin hefur mikla þýðingu fyrir fyrirtækið og er það tilbúið að leggja sitt af mörkum til að mæta kröfum neytenda um hreint fæði.”
Lífræn framleiðsla á Íslandi
Hér á landi stunda nú að jafnaði á milli 60 og 70 aðilar vottaða lífræna ræktun, vinnslu lífrænna hráefna og söfnun náttúruafurða. Þessir aðilar framleiða nokkur hundruð tegundir vottaðra afurða fyrir markað hérlendis og í vaxandi mæli einnig til tfúlutnings.
Vottaðar lífrænar afurðir og náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun hráefna, til pökkunar í neytendaumbúðir eða afhendingar í lausu, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar og íslenskar kröfur um lífræna framleiðslu.
Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi árið 1996 og í Færeyjum árið 2006. Síðan þá hafa yfir 90 bændur og fyrirtæki hlotið vottun. Auk þess vottar Tún nú framleiðslu átta fyrirtækja á náttúruvörum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu.
Birt:
Tilvitnun:
Vottunarstofan Tún „Organic Lífsstíll ehf. fær vottun til lífrænnar framleiðslu“, Náttúran.is: 7. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/07/organic-lifsstill-ehf-faer-vottun-til-lifraennar-f/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. október 2011