Við hvað starfar þú eða hvert er viðfangsefni þitt?

Ég starfa sjálfstætt og hef gert síðustu 6 árin, rek Vínskólann sem ég stofnaði en ég hef starfað víða á lífsleiðinni. Ég er líka blaðamaður á Gestgjafanum, verktaki, og sé um annars vegar vínsíðurnar og hins vegar um þátt sem snertir það sem gert er hjá smáframleiðendum, bændum, þess vegna húsmæðrum um allt land, og ég geri það í anda Slow Food. En það má segja að ég sé orðið í 50% vinnu hjá sjálfri mér því sjálfboðastörfin og félagsmálin eru umfangsmeiri og einhvern veginn eiga hug minn allan. Þar er Slow Food í fyrirrúmi, en líka Samtök lífrænna neytenda, Vínþjónasamtökin (tengjast þó aðalstarfinu mínu!) og Miðausturlönd.

Hvaða menntun eða reynslu hefur þú að baki?

Ég er menntaður landfræðingur frá Háskólanum í París-Nanterre, tók MA og doktorsgráðu þar. Ég valdi þetta fag vegna þess að ég vildi skilja heiminn sem var í kringum mig, að geta lesið í fjöll og ár, borgir eða þorp, vera ekki sérfræðingur en geta farið dýpra í það sem ég hafði áhuga á. Ég starfaði aldrei sem landfræðingur nema í blá byrjun á skipulagsstofu Parísarborgar, enda fá störf til eyrnamerkt þeim nema kennsla, en það hefur óneitanlega gefið mér viðsýni í öllu sem ég hef gert. Borgarbarnið náði loksins sambandi við hinn raunverulega heim, sem skipti mig öllu máli – ég var í París rétt á meðan skólinn var og var rokin af stað um leið og smá frí gafst. Ferðalög eru í dag sjaldan til sólarlanda og ég hef lykil að mörgu sem snertir menningu, sögu og umhverfi landanna. Svo hef ég reynslu úr viðskiptalífinu frá árunum mínum í franska sendiráðinu, úr ferðabransanum frá árum mínum þar – og svo að sjálfsögðu úr vínheiminum. Þegar á háskólaárunum, í kringum 1968, hafa málefni náttúrunnar verið efst á blaði hjá mér og áherslur breyst að sjálfsögðu eftir því sem heimurinn í kringum mig hefur sjálfur breyst.

Hvað lætur þig tikka?
Ætli það sé ekki fegurð í fjölbreytni – hvort það er í landslagi, tónlist, náttúrunni eða manneskjunni. Svo er ég voða veik fyrir góðum mat!

Finnst þér að þú getir haft áhrif í samfélaginu?

Já ég held það, þegar maður gefur allt það besta sem maður á og trúir á málefnin sem er í ljósi réttlætis (gagnvært öllum samborgurum en líka gangvart umhverfi okkar og mállausu náttúrunni) og viðsýni – það hlýtur að hafa áhrif. Oft þarf ekki mikið til að hafa áhrif, og það byrjar alltaf í kringum mann sjálfan. Engin þörf fyrir að vera þjóðþekkt manneskja og fjölmiðlamatur til þess!

Hvaða viðfangsefni finnast þér mikilvægust einmitt núna?

Það er ósköp einfalt: sjálfbærni, standa vörð um auðlindir þannig að við getum með góðri samvísku látið næstu kynslóðir taka við þeim í góðu ástandi. Það þarf að berjast eins og ljón gegn orkufrekum iðnaði og fleiri virkjunum, þessi stefna er algjör óþarfi og ef við hlúum að því sem við eigum munum við lífa góðu lífi, betra en umkringd álverum eða stóriðju. Það þarf líka að koma í veg fyrir að erfðabreyttum lífverum verði sleppt í íslenska náttúru. Svo á uppbyggilegum nótum sem fylgja þessari baráttu, þurfum við að hlúa að heimaframleiðslu, að börnunum varðandi tengslin við móður jörð, læra að sjá hlutina án þess að setja verðmiða á þá, við þurfum að efla til muna lifræna ræktun. Við þurfum að vera meðvitaðir borgarar en ekki bara neytendur, þá með-framleiðendur og kjósa með buddunni. Það er nógu stórt verkefni!

Ræktar þú eigin jurtir eða nýtirðu þér villtar jurtir?

Já ég geri bæði, er með kartöflugarð heima, rækta jarðaber, hindber og salöt, en ég nýt þess mest þegar ég fer í Vallanes á sumrin – eða heimsæki lífræna bændur hér fyrir sunnan. Ég er forfallinn og kappsamur sveppaáhugamaður og tíni jurtir eins og fíflablöð, súrur og fleiri – var að læra á söl og þara nýlega og á eftir að fara lengra þar.

Á hvaða stigi finnst þér náttúruvernd á Íslandi vera í dag?

Náttúruvernd er eilíft baráttumál hér eins og annars staðar því öflin sem vilja nota náttúruna án þess að gefa neitt í staðinn nema arð fyrir þá sem standa að notkunina, eru gríðalega sterk og erfið. Ég hef lengi sagt að það sé heppilegt að Íslendingar séu ekki fleiri en raun ber vitni því þá myndi landið vera algjör ruslatunna. En það er að breytast, hrunið hefur vakið marga til meðvitundar, það er kominn mjög góður og öflugur hópur fólks sem berst fyrir betra umgengi við vistkerfið okkar og það smitar út frá sér. Það er samt mikið verk fyrir hendi og margt aðkallandi. Það þarf að efla fjölmiðla varðandi náttúruvernd, fræða endalaust en ekki aftur og aftur vera gínkeypt fyrir tal um miljarða án þess að hugsa um afleiðingarnar kynslóðir fram í tímann. Náttúran getur ekki varið sig sjálf (þó, við finnum kannski mest fyrir henni hér á landi!) svo það er okkar skylda að taka upp hanskann fyrir hana ef við ætlum að lífa áfram á landinu.

Hvernig myndir þú vilja sjá vef Náttúrunnar þróast?

Tengingin inn á Facebook er mjög góð því þá veit maður um nýjar greinar og fær þær matreiddar beint inn á skjá, það er gott til að velja það sem mann langar að lesa áfram. Vefurinn er upplýsingabrunnur sem er alveg sér á báti hvað varðar magn frétta og greina, og viðbrögðin eru svo fljót að það er aðdáunarvert. Ég hef oft verið að hugsa hvort ekki þurfti að hafa fjölmiðil sem væri tileinkaður náttúruvernd – kannski þróa í þessa átt?

Áttu þér uppáhalds málshátt eða lífsspeki?

Eins og Vandana Shiva var að tala um að mæla velferð með hamingjustöðul, þá hef ég haft fyrir framan mig í mjög mörg ár þessa setningu frá Boddhisatva:

“Það er engin leið til hamingjunnar, hamingjan er leiðin” – maður sér heiminn þá öðruvísi, hvað er hamingjan fólgin í?

Kærar þakkir Dominique!

Ljósmynd: Dominique á kynningu á fyrirhugaðri útiræktun Orf líftækni á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti þ. 25. maí 2009 þar sem hún tók til máls og talaði máli þeirra sem vöruðu við útiræktun á erfðabreyttu byggi. Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
13. september 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Dominique Plédel Jónsson „Náttúrubarnið Dominique Plédel Jónsson“, Náttúran.is: 13. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/06/natturubarnid-dominique-pledel-jonsson/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. september 2011
breytt: 22. september 2011

Skilaboð: