Bygg ræktað til sjálfsþurftar
Byggrækt hefur náð fótfestu hér á landi og æ fleiri bændur rækta nú bygg til að fóðra skepnur sínar og enn aðrir rækta bygg til manneldis.
Nokkrir rækta bygg á grundvelli lífrænnar ræktunar* en þar má helst nefna Móðir jörð fyrirtæki þeirra hjóna Eymundar Magnússonar og Eyglóar Ólafsdóttur í Vallanesi en lífrænt bankabygg frá Vallanesi hefur verið á boðstólum í verslunum til fjölda ára. Sjá nokkrar af uppskriftum Eymundar hér.
Í vor áskotnaðis mér lítill poki með lífrænum byggfræjum frá Sigfúsi bakara í Brauðhúsinu í Grímsbæ og ákvað ég að prófa að rækta mitt eigið bygg. Að sjálfsögðu lífrænt. Þar sem ég er algjör grænjaxl þegar kemur að byggræktun hafði ég samband við Eymund Magnússon í Vallanesi og sendi honum þessar myndir (myndir teknar þ. 27. ágúst sl.) og bað hann um góð ráð varðandi þroska byggsins og hvenær tími uppskeru yrði á byggið mitt.
Eymundur svaraði svo:
„Það virðist vera að þroskast hjá þér kornið en það er ennþá svo grænt að það vantar eitthvað í að það verði full þroskað.
Þú tekur bara eitt fræ og skoðar kjarnann, fyrst er hann bara eins og vatnsbelgur en verður svo eins og ostur og að lokum hvítur og harður.
Stundum er kjarninn eins og þéttur ostur þegar ég þreski en æskilegast er að hann sé orðinn nokkuð harður.“.
Ég þakka Eymundi kærlega fyrir góð svör og bíð þolinmóð þangað til byggið mitt hefur náð þeim þroska sem hann lýsir svo vel hér að ofan.
*Sjá þá aðila sem hafa lífræna vottun á kornrækt sína hér á Grænum síðum.
Ljósmyndir: Efri myndin; nærmynd af bygginu, neðri mynd; byggbeðið. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bygg ræktað til sjálfsþurftar“, Náttúran.is: 5. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/05/bygg-raektad-til-sjalfsthurftar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.