Tré eru lífsnauðsynleg lífinu á jörðinni. Þau binda jarðveg og stuðla að jarðvegsmyndun gegnum rotnunarferli laufblaða, trjágreina og trjábola. Án jarðvegs væri enginn landbúnaður. Trén eru einnig hluti af innbúi okkar, sumir búa í timburhúsum og húsgögn og parketgólf eru smíðuð úr viði. Tré eru einnig lífsnauðsynleg mörgum vistkerfum jarðar, vistkerfum sem veita samfélögum mannanna ómetanlega vistvæna þjónustu. Við myndum svo sannarlega ekki þekkja reikistjörnu okkar aftur án trjáa.

Tré og burknar eru einnig eldri í jarðsögunni en grös og blóm. Risaeðlurnar gengu á jörðinni á milli trjáa, burkna og elftinga, en nærðust ekki á grasi, þar sem grösin voru enn ekki komin fram á sjónarsviðið á Trías og Júra tímabilunum. Grös og graslendi kemur fyrst fram á sjónarsviðið á Paleógeníska tímabilinu.

Þar sem mannkynið á rætur sínar að rekja til Austur-Afríku, sbr. rannsóknir við Olduwai gljúfrið, og þar sem mennirnir lifðu í þúsundir ára í savannalöndum Afríku, hafa flestir menn inngróna öryggistilfinningu þar sem tré eru annars vegar. Tré eru tákn lífsins og þau eru verndarar okkar. Í stórborgum nútímans geta tré verið til mikils gagns þar sem þau draga úr umferðarhávaða og taka til sín og minnka mengun í andrúmsloftinu.

Mannkynið hefur nýlega uppgötvað mikilvægi skóga við að taka til sín koltvísýring úr andrúmsloftinu. Það er staðreynd að ræktun skóga er góð og varanleg leið til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Þannig getur það að gróðursetja og rækta skóg verið mikilvægt fyrir þjóðríki sem vilja bæta samningsstöðu sína í alþjóðlegum samningum um loftslagsmál. Á Íslandi er hægt að greiða í sjóð sem heitir Kolviður og styðja þannig við skógrækt til þess að vega upp á móti brennslu eldsneytis og myndun koltvíoxíðs t.d. við flugferðir (þetta kallast kolefnisjöfnun). Þannig getum við öll lagt okkar af mörkum til þess að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Þú sérð 11 mismunandi flóru/jurtaríkisflokka undir „Náttúran / Flóra - jurtaríkið“ á Græna kortinu á Náttúran.is.

Sjá Græna kortið.

Birt:
10. júní 2012
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tré“, Náttúran.is: 10. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/garurinn-tr/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: