Samtök lífrænna neytenda og Slow-Food Reykjavík sendu rétt í þessu svohljóðandi bréf til Jóns Bjarnasonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra:

Ágæti ráðherra Jón Bjarnason

Fyrir tilviljun fréttum við í gær að gildistöku reglugerðar nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs sem átti að taka gildi þann sama dag, þ.e. 1. september 2011, hafi verið frestað hvað varðar merkingar erfðabreyttra matvæla til 1. janúar 2012 með reglugerð nr. 811/2011 sem var gerð kunn daginn fyrir áætlaða gildistöku.

Engin skýring hefur verið gefin en við höfum traustar heimildir fyrir því að einkum tvennt komi til:

  1. Innflytjendur hafi mótmælt gildistöku reglugerðarinnar, sér í lagi þeir aðilar sem flytja inn matvæli frá Bandaríkjunum.
  2. Reglugerðir ESB nr. 1829 og 1830/2003 séu loks á leið inn í EES samninginn, sem þýði að orðalagið muni breytast lítillega í íslenskru gerðinni og það gefi tilefni til að fresta gildistökunni.

Við viljum - í nafni Slow Food Reykjavík og Samtaka lífrænna neytenda - mótmæla frestun gildistökunnar sem sýnir algera fyrirlitningu gagnvart íslenskum neytendum.

Reglugerð um merkingu erfðabreyttra matvæla kom út í Evrópu árið 2003 og íslensk innflutningsfyrirtæki sem kaupa matvæli frá Bandaríkjunum hafa frá þeim tíma vitað að þessi reglugerð myndi verða tekin inn í íslensku löggjöfina (þar sem ekki er hægt að koma sér undan því) og hafa því haft heil átta ár til að undirbúa sig. Við vitum að ástæðan er að engin skylda er (í raun bannað) að merkja matvæli sem innihalda erfðabreyttar lífverur í Bandaríkjunum - þar af leiðandi geta þessir stórkaupmenn ekki uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar - án þess að merkja vörurnar sjálfir.

Á hinn bóginn vitum við einnig að ESB reglugerðir (1829 og 1830/2003) sem eru loks á leið inn í íslensku löggjöfina eru að miklu leyti grunnurinn að reglugerð nr 1038/2010 og eins og við bentum á sem umsagnaraðilar í vinnsluferlinu vantar í íslensku gerðina ákvæði um gagnagrunn yfir þær tegundir af erfðabreyttum lífverum sem má markaðssetja. Með slíkum gagnagrunni væri íslenskum innflytjendum sniðinn enn þrengri stakkur, því margar af þeim erfðabreyttu afurðum sem eru í matvælum sem þeir flytja til Íslands eru ekki í gagnagrunni þeim sem Evrópugerðir kveða á um og mætti þar af leiðandi ekki flytja inn til landsins.

Hér er ráðuneytið greinilega að verja hagsmuni örfárra fyrirtækja sem flytja inn matvæli frá landi þar sem neytendavernd er fórnað fyrir hagsmuni fjölþjóðafyrirtækja og hunsa hagsmuni íslenskra neytenda sem hafa þurft að biða í átta ár eftir að innleidd sé reglugerð sem gefi þeim tækifæri til að hafa val og taka upplýsta ákvörðun þegar þeir kaupa matvæli. Þetta er blaut tuska í andlit neytenda og við förum fram á að fá ítarlegan rökstuðning ráðuneytisins fyrir frestun gerðarinnar.

Við værum ráðuneytinu þakklát fyrir að senda þennan rökstuðning til okkar sem við munum áframsenda til okkar meðlima og þeirra sem áhuga hafa á honum.

Bestu kveðjur.

Dominique Plédel Jónsson formaður Slow-Food Reykjavík og Oddný Anna Björnsdóttir fulltrúi framkvæmdanefndar Samtaka lífrænna neytenda.

Birt:
2. september 2011
Tilvitnun:
Oddný Anna Björnsdóttir, Dominique Plédel Jónsson „Samtök lífrænna neytenda og Slow-Food Reykjavík gera alvarlegar athugasemdir við frestun gildistöku merkinga erfðabreyttra matvæla“, Náttúran.is: 2. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/02/samtok-lifraenna-neytenda-og-slow-food-reykjavik-g/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: