Varúð erfðabreytt
Þann 2. janúar sl. tók ný reglugerð gildi hér á landi en hún felur í sér að merkja þarf sérstaklega allar þær matvörur og dýrafóður sem inniheldur eða samanstendur af erfðabreyttum lífverum eða er framleitt úr eða inniheldur innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum. Reyndar átti reglugerðin að taka gildi þ. 1. september 2010 en þáv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra frestaði gildistökunni hvað varðar merkingu matvælanna. Sjá alla reglugerðina hér.
Hér til hægri er tillaga að varnaðarmerki sem ætti heima á síkum vörum en tekið skal fram að þetta er ekki opinbert merki heldur sjálfstæð tillaga mín og skal skoðuð sem frjáls og listræn útfærsla með húmor. Hún styðst þó við raunveruleg gjörning sem á sér stað við erfðabreytingar. Þ.e. að taka gen úr mönnum, svínum eða öðru óskildum lífverum og skjóta inn í t.d. bygg, hafra og maís til að ná fram ákveðnum eiginleikum sem oftast hafa þó einnig dökkar hliðar og ógna líffræðilegum fjölbreytileika og mannlífi á stórum svæðum jarðar, t.a.m. í Indlandi og Bandaríkjunum.
Mér er ekki kunnugt um að sérstakt varnaðarmerki hafi verið hannað af stjórnvöldum en í reglugerðinni kemur fram að merkingarnar sem nú eru lögboðnar eigi að koma fram í texa á umbúðum varanna (sjá 4. grein hér að neðan). Ég geri það þó að tillögu minni að merki verði hannað sem að taki af öll tvímæli um það hvort að vörur innihaldi erfðabreyttar lífverur eða ekki.
4. gr.
Um merkingar erfðabreyttra matvæla
Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar um merkingu matvæla skulu erfðabreytt matvæli sem falla undir reglugerð þessa uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. þar sem matvælin eru erfðabreyttar lífverur skal orðið „erfðabreytt“, koma fram innan sviga strax á eftir vöruheiti;
b. þar sem matvælin samanstanda af fleiri en einu innihaldsefni skulu orðin „erfðabreytt“, eða „framleitt úr erfðabreyttu (nafn innihaldsefnisins)“ koma fram innan sviga strax á eftir viðkomandi innihaldsefni í innihaldslýsingu;
c. þar sem innihaldsefnið er auðkennt með nafni flokks skulu orðin „inniheldur erfðabreytta (nafn á lífverunni)“ eða „inniheldur (nafn innihaldsefnisins) sem framleitt er úr erfðabreyttri (nafn lífverunnar)“ koma fram á innihaldslýsingu;
d. þar sem innihaldslýsing er óþörf skulu orðin „erfðabreytt“ eða „framleitt úr erfðabreyttri (nafn lífverunnar)“ koma fram á merkingunni;
e. upplýsingarnar sem vísað er til í liðum a og b mega koma fram í neðanmálsgrein við innihaldslýsingu. Í því tilviki skal prenta þær með letri sem er að minnsta kosti jafnstórt og letrið á innihaldslýsingunni. Þar sem innihaldslýsing er óþörf skulu þær koma greinilega fram á merkingunni;
f. þegar matvælum er dreift án umbúða eða þau eru seld í litlum neytendaumbúðum þar sem yfirborðið er minna en 10 fersentimetrar þar sem það er stærst skulu upplýsingar sem krafa er gerð um í þessari grein ávallt vera sýnilegar þar sem matvælunum er stillt upp eða þar við hliðina á umbúðunum sjálfum í leturstærð sem er auðlæsileg.
Hafi matvælafyrirtæki ekki uppfyllt kröfur um merkingar erfðabreyttra matvæla samkvæmt reglugerð þessari er dreifingaraðila heimilt að merkja matvælin í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar enda liggi fyrir staðfesting á efnainnihaldi matvælanna frá matvælafyrirtækinu.
Grafík: Varúð erfðabreytt, Guðrún A. Tryggvadóttir. Creative Commons.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Varúð erfðabreytt“, Náttúran.is: 30. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2011/09/01/varud-erfdabreytt/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 1. september 2011
breytt: 30. mars 2012