Við hvað starfar þú eða hvert er viðfangsefni þitt?

Ég er forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og ég vinn að því að fá sjálfbærnihugsun inn í alla starfsemi skólans.

Hvaða menntun eða reynslu hefur þú að baki?

Ég er með BS próf í jarðfræði frá HÍ og MS í jarðvísindum og PhD í jarðefnafræði frá Northwestern University í Evanston, Illinois – sem er úthverfi Chicago.  Ég vann síðan sem ráðgjafi í Chicago um umhverfismál, sem nýdoktór í París og flutti síðan til Bristol þar sem ég starfaði við Bráskotháskóla í 20 ár og endaði sem prófessor í umhverfissjálfbærni i jarðvísindadeild skólans.  Árið 2008 var ég ráðin sem svisðforseti við HÍ og flutti þá til Íslands eftir 30 ára nám og störf erlendis.

Hvað lætur þig tikka?

Vinna við að fá nemendur, samstarfsmenn og fólkið í samfélaginu hér og erlendis til þess að skilja hvað sjálfbærni þýðir og hvernig við getum breytt okkar lifnaðarháttum til að lifa innan marka jarðarinnar og skapa sjálfbæra framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Finnst þér að þú getir haft áhrif í samfélaginu?

Já, ég hef orðið vör við að mörgum innan háskólans og utan finnst það sem ég hef til málanna að leggja vera áhugavert. 

Hvaða viðfangsefni finnast þér mikilvægust einmitt núna?

Passa upp á að nýja sjórnarskráin verði þannig að náttúra íslands og náttúruauðlindir verði nýttar á sjálfbæran máta og að eignarréttur samfélagsins sé virtur en einkaréttur ekki gefinn t.d. á vatni.

Ræktar þú eigin jurtir eða nýtirðu þér villtar jurtir?

Ég rækta kryddjurtir, myntu og sallat í garðinum heima. Ég drekk hvannarte sem vinir mínir gefa mér. Síðan fer ég í berjamó og safna sveppum þegar vel liggur á mér.

Á hvaða stigi finnst þér náttúruvernd á Íslandi vera í dag?

Náttúruverndin er mjög brothætt á Íslandi. Hér eru enn öfl græðginnar sem eru að vinna að því að fá réttindi til að ofnýta náttúruauðlindir, t.d. háhitasvæði til orkunýtingar. Fyrir hrun voru opnar dyr á milli banka, stjórnmálamanna og orkufyrirtækja.  Þessar dyr hafa enn ekki lokast.

Hvernig myndir þú vilja sjá vef Náttúrunnar þróast?

Á vef Náttúrunnar er mikið af upplýsingum sem margir kunna að nýta sér. Mikið væri gott og gaman að sjá vefinn þróast í að hafa kennsluefni sem skólar geta nýtt sér við kennslu um náttúruvernd og sjálfbærni.

Áttu þér uppáhalds málshátt eða lífsspeki?

“Anyone who believes that exponential growth can go on for ever in a finite world is either a madman or an economist” – eða “Sá sem trúir því að óendalegur vöxtur geti haldið áfram til eilífðar í takmörkuðum heimi er annaðhvort vitfirrtur eða hagfræðingur”
Kenneth Boulding

“We need to be the change we want to see in the world” – eða ,,við verðum að vera breytingin sem við viljum sjá í heiminum”
Ghandi

“Nature shrinks as capital grows.  The growth of the market cannot solve the crisis it creates” – eða “Náttúran rýrnar þegar veraldlegur auður vex.  Vöxtur markaðsins getur ekki leyst kreppuna sem hann veldur”

Kærar þakkir Kristín Vala!

Ljósmynd: Kristín Vala Ragnarsdóttir, ljósm. Einar Bergmundur.

Birt:
30. ágúst 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Kristín Vala Ragnarsdóttir „Náttúrubarnið Kristín Vala Ragnarsdóttir“, Náttúran.is: 30. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/30/natturubarnid-kristin-vala-ragnarsdottir/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. september 2011

Skilaboð: