Sáning birkifræs, endurheimt landgæða
Myndband um söfnun,verkun og sáningu birkifræs til endurheimtunar landgæða er nú aðgengilegt á netinu. Umhverfisfræðingurinn, garðyrkjumeistarinn og náttúruunnandinn Steinn Kárason hafði umsjón með gerð myndbandsins, samdi handrit og tónlist, en Axa ehf sá umframleiðsluna.
Um tilurð myndbandsins segir Steinn að hann hafi haft dálæti á íslenska birkinu frá blautu barnsbeini og vilji veg þess sem mestan, enda birkið ein af undirstöðum byggðar í landinu um aldir.
„Þetta er einskonar framhald á vinnu minni við endurheimt Brimnesskóga í Skagafirði og kynbótum á Geirmundarhólabirkinu. Ég er í stjórn félags Skógarskáta og hef verið í vinnuhópi skáta um „græn fótspor skáta“ og skátar vilja láta gott af sér leiða. Skógarskátar ætla að safna birkifræi og sá því til uppgræðslu við Úlfljótsvatn og víðar og einhvern fróðleik vantaði. Þess vegna bar ég á þeim vettvangi fram hugmyndina um gerð myndbandsins við ágætar undirtektir. Steingrímur Erlendsson hjá Axa tók vel í hugmyndina og þetta myndband er afraksturinn“.
Með myndbandinu hefur fólk haldgóðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að skila náttúrunni aftur því sem frá henni var tekið og njóta jafnframt útivistar í íslenskri náttúru.
Birt:
Tilvitnun:
Steinn Kárason „Sáning birkifræs, endurheimt landgæða“, Náttúran.is: 26. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/26/saning-birkifraes-endurheimt-landgaeda/ [Skoðað:26. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.