Er ég ferðaðist með fjölskyldu minni yfir Kjöl í sumar sló mig mjög hve mikið af sauðfé var þar á beit. Ég hugsaði til Herdísar Þorvaldsdóttur og hennar löngu baráttu við að opna augu landsmanna fyrir þögguninnni sem á sér stað um þetta vandamál. Ógrynni fjár er varið í landgræðslu en viðkvæmustu svæðin látin óáreitt fyrir ofbeit, eins og ekkert og enginn sjái neitt athugavert við það.

Í grein í síðasta Bændablaði, 14 tölublaði 2011, undir fyrirsögninni Of mildilega tekið á landnýtingarþætti gæðastýringar (höfundur: /fr) er ofbeit á viðkvæmum svæðum tekin til umfjöllunar og rætt bæði við Andrés Arnalds fagmálastjóra Landgræðslu ríkisins og Ólaf Dýrmundsson landnýtingarráðunaut Bændasamtakanna.

Þar kemur fram að Landgræðsla ríkisins hafi með höndum eftirlitsskyldu með landi og skal leggja mat á land framleiðenda sem óska eftir að taka upp gæðastýringu í sauðfjárrækt en yfir 90% bænda vinna skv. gæðastýringarkerfinu og er umbunað í samræmi við það með greiðslum úr ríkissjóði.

Spurt er hvernig standi þá á því að ítrekað sé því haldið fram að sauðfjárrækt fylgi landeyðing og slíkt megi sjá víða um land.

Andrés Arnalds segir að það hafi verið gríðarlega jákvætt skref þegar ákveðið var að tengja hluta greiðslna til sauðfjárbænda við gæðastýringu, með gróðurverndarþáttinn sem einn hluta af því kerfi.  „Það var hins vegar ákveðið að byrja mjög milidilega meðan verið var að festa kerfið í sessi,“ segir Andrés. „Vandinn við gæðastýringuna, sem kristallast kannski ekki síst í ári eins og í ár þegar tíðarfar er erfitt, er að kröfurnar eru ekki fullnægjandi. til að mynda má segja að ýmis afréttarlönd sem verið er að nýta þyrftu að fá vægari beit eða eru jafnvel ekki beitarhæf. Til þess er ekki tekið tillit til í gæðastýringu.“

Er spurður nánar út í hvort gagnrýnin á sauðfjárræktina sé ekki gagnrýni á Landgræðsluna segir Andrés að það megi gagnrýna mildileika í sambandi við gæðastýringuna.

Ólafur Dýrmundsson landnýtingarráðunautur Bændasamtakanna svaraði Andrési fullum hálsi í nefndri grein og segist vera honum ósammála um að kröfur varðandi landnýtingu innan gæðastýringarinnar séu ekki fullnægjandi.

Hann segir „ Ég tel að reglur um gæðastýringu sauðfjárframleiðslu, ekki síst varðandi landnýtingarþáttinn, séu nægilega strangar. Í reglugerðinni sem var endurskoðuð 2008, eru skýrar viðmiðunarreglur um mat á landi, bæði með tilliti til jarðvegs og gróðurs, sem gilda jafnt um heimalönd, upprekstrarheimalönd og afrétti. Bændasamtök Íslands treysta því að hinn óháði eftirlitsaðili, Landgræðsla ríkisins, sinni þessu eftirliti af kostgæfni og það kemur á óvart ef það er ekki gert. Þetta traust til Landgræðslunnar birtist einnig mjög skýrt í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar sem Bændasamtökin gerður við ríkisstjórnina 2007“

Það virðist því ljóst að bragarbót verður að gera á eftirliti með sauðfjárbeit á viðkvæm svæði á landinu, og það hið fyrsta.

Ljósmyndir: Kindur á Kili í júlí 2011, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
20. ágúst 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Í raun sinnir enginn eftirliti með sauðfjárbeit á viðkvæmum svæðum “, Náttúran.is: 20. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/20/i-raun-sinnir-enginn-eftirliti-med-saudfjarbeit-vi/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: