Í dag er Alþjóðlegi Sjálfboðaliðadagur Sameinuðu þjóðanna. Deginum er ætlað að beina kastljósinu að sjálfboðaliðum um allan heim og þakka þeim fyrir störf sín í þágu hinna ýmsa verkefna sem stuðla að bættu samfélagi.

Við hjá Náttúran.is höfum verið svo lánsöm að hafa fengið að vinna með sjálfboðaliðum frá SEEDS samtökunum af og til um þriggja ára skeið. Bæði hefur Guðrún tekið á móti þremur hópum fyrir hönd Landverndar í Alviðru þar sem gríðarmikið og gott starf var unnið og auk þess hefur hún tekið á móti hópi til að vinna fyrir vefinn, að pökkun og dreifingu á Náttúruspilum og Græna Reykjavíkurkortinu til dreifngar um á Grænum apríl.

Guðrún tekur einnig reglulega að sér að kynna vefinn og umhverfismál á Íslandi fyrir SEES hópum og eiga þær kynningar oftast stað í Farfuglaheimilinu í Laugardal og í Norræna húsinu. Hún hefur einnig unnið sem sjálfboðaliði með SEES sjálfboðaliðum að listrænni hugmyndavinnu í Photo Marathon verkefnum SEEDS. Öll samskipti milli Náttúrunnar og SEEDS sjálfboðaliða hafa verið sérstaklega ánægjuleg og gefandi á báða bóga.

Hópur sjálfboðaliða frá SEEDS komu nú síðast á kynningu og brainstorming til okkar á skrifstofu Náttúrunnar í síðasta mánuði. Hópurinn samanstóð af þeim Matteo Esposito, Bora Kim, Eunsong Jung, Timur Guslov, Ajda Dernikovic, Emilia Erikkila, Elena Vincentini, José Sevilla og Sophie Boone.

Guðrún og Einar kynntu hópnum sögu vefsins og nýja þróunarliði og síðan var snæddur hádegisverður úr afurðum beint úr eigin garði ásamt og með örlitlu af aðkeyptu lífrænu hráefni.

Eftir hádegi vann hópurinn síðan að hugmyndum fyrir næstu þróunarliði sem tengjast vistvænni ferðamennsku og komu þar margar skemmtilegar hugmyndir fram sem unnið verður úr á næstu mánuðum.

Við hjá Náttúran.is þökkum þessum yndislega hópi af klárum og duglegum sjálfboðaliðum fyrir framlag þeirra til þróunar Náttúrunnar og hlökkum til að vinna með fleiri sjálfboðaliðum sem allra fyrst.

Ljósmyndir: SEEDS sjálfboðaliðar hjá Náttúrunni þ. 17. nóvember 2012, Guðrún A. Tryggvadóttir og Einar Bergmundur.

Birt:
5. desember 2012
Höfundur:
Náttúran
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Náttúran „Náttúran og sjálfboðaliðar vinna saman“, Náttúran.is: 5. desember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/05/natturan-og-sjalfbodalidar-vinna-saman/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. desember 2012

Skilaboð: