Mánudaginn 29. ágúst heldur Vandana Shiva opinberan fyrirlestur í Háskólabíói, kl. 17.00. Aðgangur er ókeypis.
Vandana Shiva er hugsuður og baráttukona á sviði sjálfbærrar þóunar, umhverfis- og mannréttindamála. Hún er þekkt um allan heim fyrir baráttu sína fyrir hag indverskra bænda og starf sitt í þágu líffræðilegrar fjölbreytni og bættrar umgengni við umhverfið.

Vandana Shiva hóf snemma á ferli sínum að boða sjálfbærni. Hún hefur löngum barist fyrir hönd smáframleiðenda og í þágu lífræns landbúnaðar og hún er einn atkvæðamesti gagnrýnandi erfðabreytinga á nytjaplöntum í heiminum. Hún hefur beitt sér gegn þvé að fjölþjóðleg iðnaðarfyrirtæki nái yfirráðum yfir matvælaframleiðslu og gegn einkavæðingu vatns. Hún hefur jafnframt unnið ötullega að réttindum kvenna, m.a. til að auka áhrif þeirra í landbúnaði, og að varðveislu staðbundinnar þekkingar sem er að glatast vegna hnattrænna áhrifa og sóunar á náttúruauðlindum.

Vandana Shiva hefur birt yfir 500 vísindagreinar, skrifað 20 bækur og haldið fjölda fyrirlestra. Hún nýtur virðingar víða og hefur með vandaðri og málefnalegri umfjöllun haft áhrif á starf margra alþjóðastofnana, s.s. Alþjóðabankans og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Einnig hefur hún veitt stjórnvöldum ýmissa landa ráðgjöf. Nú vinnur hún t.d. að þriggja ára verkefni fyrir stjórnvöld í Bútan, en stefnt er að því að gera landið hið fyrsta í heiminum þar sem matvælaframleiðsla verður 100% lífræn.

Í tengslum við komu Vandana Shiva mun Bíó Paradís sýna þrjár heimildarmyndir um líffræðilega fjölbreytni, erfðabreyttar lífverur og lífvísindaiðnað samtímans:
25. ágúst kl. 20.00: Vandana Shiva - Seeds and Seedmultinationals
27. ágúst kl. 20.00: Life Running Out of Control
28. ágúst kl. 20.00: Scientists Under Attack

Um Vandana Shiva
Vandana Shiva fæddist á Indlandi árið 1952 og er eðlisfræðingur að mennt. Eftir að hafa lokið B.A. prófi í eðlisfræði lauk hún M.A. námi í vísindaheimspeki við Guelph-háskóla, Ontario í Kanada og síðar doktorsprófi í skammtaeðlisfræði frá Western Ontario-háskóla. Hún sneri sér fljótlega að þverfaglegum rannsóknum á sviði vísinda, tækni og vistfræða við Indversku vísindastofnunina í Bangalore. Árið 1982 stofnaði hún sjálfstæða rannsóknarstofnun, Research Foundation for Science, Technology and Ecology (RFSTE), þar sem stundaðar eru rannsóknir á samspili umhverfis og samfélagslegra þátta. Vandana Shiva veitir forstöðu Navdanya-samtökunum á Indlandi (www.navdanya.org), en samtökin voru stofnuð að hennar frumkvæði árið 1991 í þvií skyni að auka sjálfbærni í landbúnaði og stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika.

Eftirtaldir aðilar standa að heimsókn Vandana Shiva: Háskóli Íslands, EDDA – öndvegissetur, Slow Food Reykjavík, Framtíðarlandið. Fjöldi aðila styrkir komu Vandana Shiva til landsins og er umhverfisráðuneytið sérstakur bakhjarl verkefnisins.

Nánari upplýsingar veitir Dominique Plédel Jónsson dominique@simnet.is eða 898 4085.

Bæklingur

Sjá nokkrar af bókum Vandana Shiva á ecobooks.com.

Birt:
17. ágúst 2011
Tilvitnun:
Kristín Svava Tómasdóttir, Hilda Fjóla Antonsdóttir, Sigríður Þorgeirsdóttir „Vandana Shiva kemur til Íslands“, Náttúran.is: 17. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/17/vandana-shiva-kemur-til-islands/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. ágúst 2011

Skilaboð: