Allskonar fljótlegar berjauppskriftir
Hér eru nokkrar góðar og fljótlegar bláberjauppskriftir:
Hrábláberjasulta
500 g hrásykur
1 kg bláber
Hrásykrinum er stráð yfir berin í skál og látin liggja í smátíma, hrært varlega í af og til þangað til að sykurinn hefur sogað til sína nóg af safanum í berjunum til að útlitið sé sultulegt. Tilbúið!
Engin suða, ekkert vesen! Hráberjasultan geymist ekki eins lengi og soðin og í sótthreinsaðar krukkur lögð sulta en ef ekki á að sulta fyrir allan veturinn heldur gleðjast yfir ferskri uppskeru í nokkra daga, dugir þessi uppskrift vel til.
Bláberjasulta
1 kg bláber
1 kg sykur (eða 80 g.)
Blandið saman og sjóðið varlega í 10 mínútur. Tilbúið á krukkurnar.
Frosin ber
Bláber (eða hvaða ber sem er) eru lögð í plastglas, vatni hellt yfir svo yfir fljóti. Lokað með plastfólíu og sett í frysti. Þannig geymast berin „fersk“ langt fram á næsta ár. Einnig hægt að setja í litla samlokupoka og hella vatni með og binda þétt fyrir með bandi.
Sæt ber allt árið
Bláberjum (eða hvaða berjum sem er) er velt upp úr sykri/hrásykri, sett í plastpoka og fryst.
Þurrkuð ber
Bláber (eða hvaða ber sem er, þó ekki mjög stórum og safaríkum) eru sturtað í ofnskúffu sem búið er að leggja bökunarpappír á. Sett í ofn og kveikt undir á 50oC í nokkra klukkutíma, ágætt að hafa ofninn örlítið opinn af og til svo rakinn fari út. Ágætt að snúa nokkrum sinnum en ekki nauðsynlegt. Berin þorna og verða „þurrkuð ber“, þvílíkt lostæti og geymast allt árið.
Ljósmynd: Bláberjalyngi. ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Allskonar fljótlegar berjauppskriftir“, Náttúran.is: 6. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2010/09/05/allskonar-fljotlegar-berjauppskriftir/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. september 2010
breytt: 6. ágúst 2014